Flugvirkjar komnir í verkfall

Í morgun hófst ótímabundin vinnustöðvun flugvirkja Icelandair og félagið hefur þegar aflýst ferðum í dag og seinkað brottförum dagsins.

icelandair 757 a
Mynd: Icelandair

Samningafundir milli forsvarsmanna Icelandair og Flugvirkjafélag Íslands skiluðu ekki árangri og því hófst verkfall flugvirkja Icelandair í morgun. Það er því ljóst að veruleg röskun verður á áætlun Icelandair í dag og á morgun samkvæmt þeim upplýsingum sem finna má á heimasíðu félagsins. Þannig hafa áætlunarferðir til Ósló, Bergen, Zurich og Manchester verði felldar niður og seinkun verði á fjöldamörgu af ferðum dagsins.

Farþegar eiga rétt á endurgreiðslu á flugmiðum eða að flugfélagið komið þeim á leiðarenda með öðrum leiðum samkvæmt þeim reglum sem gilda um aflýsingar á flugi og finna má á heimasíðu Samgöngustofu. Þar segir jafnframt að farþegar eigi ekki á skaðabótum ef verkfall er ástæða þess að flug er fellt niður.

Nú er vika í aðfangadag og af umræðum í Facebook hópum Íslendinga, sem búsettir eru erlendis, að dæma þá mun verkfallið hafa áhrif á jólaferðir margra til Íslands enda margir íslenskir útlendingar á leiðinni til landsins þessa dagana. Og á sama tíma eiga vafalítið margir hér á landi pantað far til ættingja út í heimi.

Verkfall flugvirkja gæti líka haft töluverð áhrif á ferðaþjónustuna enda er Ísland orðið vinsæll áfangastaður í kringum jól og áramót. Í tilkynningu sem Samtök ferðþjónstunnar sendu frá sér fyrir helgi segir að gera megi ráð fyrir því að vinnustöðvunin muni daglega raska ferðum 10 þúsund flugfarþega og þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessi staða kemur upp. „Frá því árið 2009 hefur Flugvirkjafélag Íslands boðað til verkfalls á u.þ.b. eins og hálfs árs fresti með tilheyrandi óvissu og höggi fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi. Það segir sig sjálft    slíkt  vinnumarkaðslíkan  gengur  ekki  upp  og  er  fullreynt.  Tryggja  verður stöðugt  rekstrarumhverfi  greinarinnar  til  framtíðar. Það  er  umhugsunarefni  hvernig fámennir hópar í kjarabaráttu geta ítrekað komið ferðaþjónustunni í uppnám,“ segir í tilkyningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

Þar er jafnframt bent á að stöðvun flugs þess flugfélags sem flýgur með 10 þúsund ferðamenn á dag, og hefur mesta markaðshlutdeild, hafi mikil neikvæð áhrif á hagkerfið í heild sinni. „Á hverjum degi sem verkfall stendur yfir er fjárhagslegt tjón fyrir þjóðarbúið því gífurlegt. Samtök ferðaþjónustunnar hvetja samningsaðila til að leita allra leiða til að ná sáttum í  deilunni  sem  fyrst  og  eyða  þannig  óvissu  fyrir  ferðaþjónustuna  og  landsmenn  alla. Ábyrgð samningsaðila er mikil, enda er flug aðal samgöngumáti ferðamanna til og frá landinu.“