Fylgjast með rekstri íslensku flugfélaganna

Samgöngustofa kallar árlega eftir upplýsingum um stöðu flugfélaganna en innan stjórnarráðsins er verið að kanna nauðsyn þess að hafa tilbúna neyðaráætlun ef millilandaflugfélögin lenda í rekstrarvanda.

icelandair wow
Myndir: Icelandair og WOW air

Eru Icelandair og WOW air orðin kerfislega mikilvæg fyrir efnahagslegan stöðugleika á sama hátt og stærstu bankar landsins? Þessari spurningu var velt upp í greiningu Landsbankans í haust og þar var jafnframt spurt hvort útbúa þurfi viðbragðsáætlun sem hægt er grípa til ef flugfélögin lenda í vanda. Þess háttar áætlun er nú í bígerð líkt og Túristi greindi frá og koma fulltrúar fjögurra ráðuneyta að vinnunni sem sett var af stað undir forystu forsætisráðuneytisins. Verkefnið er ennþá á byrjunarstigi en meðal annars hefur verið kallað eftir upplýsingum frá Samgöngustofu en það eru starfsmenn hennar sem fylgjast með rekstri flugfélaganna.

Aðspurð um í hverju eftirlitið felst, segir Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, að árlega sé kallað eftir gögnum um fjárhag flugfélaganna og þeim ber að skila í lok mars. Auk þess eiga forsvarsmenn flugfélaganna að skila ársreikningi til Samgöngustofu fyrir 30. júní ár hvert. „Þá er einnig kallað eftir gögnum um fjárhag vegna aukningar eða samdráttar í starfsemi eða í sérstökum tilvikum þegar ástæða er talin til.”

Gjaldþrot þýska flugfélagsins Airberlin og hins breska Monarch, nú í haust, hafa ekki þótt tilefni til að óska eftir nýjum upplýsingum um rekstur íslensku flugfélaganna að sögn Þórhildar. En áhrifanna af gjaldþroti Monarch gætti hér á landi þó flugfélagið hafi aldrei boðið upp á Íslandsflug. Ástæðan er sú að Kortaþjón­ust­an var einn af færsluhirðum breska flugfélagsins og hafði íslenska fyrirtækið greitt Monarch hluta af andvirði farmiðakaupa fyrir ferðir sem ennþá voru ófarnar. Þegar rekstur Monarch stöðvaðist þurfti Kortaþjónustan að endurgreiða korthöfum andvirði allra ónotaðra flugmiða og þar á meðal þá upphæð sem Monarch hafði fengið fyrirfram. Þetta varð til þess að Kortaþjónustan tapaði nær öllu eigin fé sínu og í kjölfarið fór Fjármálaeftirlitið fram á að fyrirtækið héldi leng­ur eftir fyr­ir­fram­greiðslum viðskipta­manna sinna. En líkt og kom fram í frétt Mbl hefur um fimmtungur af greiðslukortasölu WOW air farið í gegnum Kortaþjónustuna.  

Til marks um mikilvægi íslensku flugfélaganna fyrir ferðaþjónustu þá er í ár er gert ráð fyrir að erlendir komufarþegar á Keflavíkurflugvelli verði nærri 2,3 milljónir. En miðað við þær tölur sem liggja fyrir um farþegafjölda Icelandair og WOW air og hlutfall mismunandi farþegahópa um borð í þotum félaganna þá má gera ráð fyrir að flugfélögin tvö flytji til landsins á bilinu 1,2 til 1,4 milljónir ferðamanna í ár. Eða ríflega helming allra þeirra erlendu ferðalanga sem leggja leið sína til Íslands.