Gistingin hjá Trump hríðlækkar

Það verður sífellt ódýrara að gista á lúxushótelum Bandaríkjaforseta.

trump
Mynd: Hvíta húsið

Á Trump hótelinu í Las Vegas kostar nóttin nú að jafnaði um 32 þúsund krónur en áður en eigandinn, Donald J. Trump, tók við lyklavöldunum í Hvíta húsinu þá þurftu gestir hótelsins að meðaltali að greiða um 86 þúsund krónur fyrir herbergið. Þetta kemur fram í greiningu fyrirtækisins Fair-FX en þar er jafnframt bent á að þó að verðlækkunin sé mest á hóteli Bandaríkjaforseta í spilavítaborginni þá hafi prísarnir á fínu hótelunum hans út um víða veröld einnig tekið mikla dýfu síðastliðið ár.

Hvað sem verðlækkuninni líður þá er ljóst að það kostar skildinginn að gista á hótelum Trump. Sá sem bókar í dag tveggja manna herbergi í skýjakljúf hans í Chicago, síðustu helgina í janúar, þarf að greiða nærri 70 þúsund krónur fyrir helgina. Verðið er svipað í Trump turninum í New York samkvæmt heimasíðum hótelanna.