Ísland næstbest annað árið í röð

20 bestu ferðamannalönd Evrópu að mati Breta.

Kirkjufell er eitt myndaðasta fjallið hér á landi og ekki skemmir fyrir þegar norðurljósin lýsa upp himininn þar í kring. Mynd: Alexander Milo/Unsplask

Það er ekkert land í Evrópu sem er eins spennandi heim að sækja eins og Ítalía að mati lesenda breska blaðsins Telegraph. Þar á eftir kemur Ísland. Þetta sýna niðurstöður árlegrar könnunar ferðablaðs Telegraph en í henni tóku 90.000 manns og er þetta annað árið í röð sem Ísland fær silfrið. Að þessu sinni fékk Króatía bronsið þar sem álit Bretanna á Grikklandi dalaði ögn í ár

Í umsögn Telegraph um Ísland segir að það sé aðdáunarverð frammistaða hjá landi sem áður var varla til í huga ferðafólks að ná öðru sætinu annað árið í röð. Einnig er tekið fram að verðlagið á Íslandi sé nú viðráðanlegra og þangað sé auðveldara að komast. Landslagið og norðurljósin eru svo sögð eitt helsta aðdráttaraflið en líkt og komið hefur fram hefur sala á sérstökum norðurljósaferðum um Norðurland selst betur en gert var ráð fyrir.

Bretar eru fjölmennastir í hópi ferðamanna á Íslandi yfir vetrarmánuðina og flogið er hingað reglulega frá London, Manchester, Bristol, Birmingham, Manchester, Glasgow, Edinborg, Aberdeen og svo Belfast á N-Írlandi.

20 bestu ferðamannalönd Evrópu að mati Telegraph:

  1. Ítalía
  2. Ísland
  3. Króatía
  4. Grikkland
  5. Noregur
  6. Portúgal
  7. Spánn
  8. Slóvenía
  9. Austurríki
  10. Frakkland
  11. Sviss
  12. Tyrkland
  13. Kýpur
  14. Svíþjóð
  15. Danmörk
  16. Ungverjaland
  17. Bretland
  18. Pólland
  19. Tékkland
  20. Finnland