Mikill áhugi á Eldingu

Stærsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins er til sölu en frestur til að skila inn tilboðum rann út á mánudaginn.

Mynd: Elding

Í lok nóvember hófst söluferlið á Eldingu, stærsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins, en innan þess eru einnig Sea Safari og Hvala­skoðun Ak­ur­eyr­ar. Það er Arctica Finance sem sér um söluna á Eldingu og í svari verðbréfafyrirtækisins, við fyrirspurn Túrista, segir að mikill áhugi sé á kaupum á hvalaskoðunarfyrirtækinu en ekki er hægt að veita upplýsingar um hversu mörg tilboð bárust. Lokafrestur til að skila inn tilboði rann út í fyrradag, 18. desember.

Elding er fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var árið 2000 og starfa þar hátt í 80 starfsmenn. Allan ársins hring býður félagið upp á hvalaskoðunarferðir og ýmis konar aðrar siglingar frá bæði Reykjavík og Akureyri.