Ódýrt með öllum fimm flugfélögunum til London

Loftbrúin til London hefur aldrei verið eins þétt og það þarf ekki að kosta mikið að nýta sér hana.

london oxfordstraeti
Mynd: Visit London

Næstu vikur geta þeir sem eiga erindi til London valið á milli 10 til 13 áætlunarferða á degi hverjum frá Keflavíkurflugvelli og eru það fimm flugfélög sem skipta með sér öllum þessum brottförum. Aldrei hefur framboðið verið svona mikið á þessari flugleið og af fargjöldunum að dæma þá græða forsvarsmenn flugfélaganna ekki mikið á Lundúnarfluginu. Þannig er hægt að finna helgarferðir hjá öllum flugfélögunum fimm á innan við 20 þúsund næstu vikur og í sumum tilvikum má fljúga fyrir ennþá minna, til dæmis með því að fara með einu flugfélagi út en öðru heim. Þó ber að hafa í huga að innritaður farangur fylgir ekki ódýrustu miðunum.

Auk Icelandair og WOW air þá bjóða British Airways, easyJet og Norwegian einnig upp Íslandsflug frá London en þó frá ólíkum flugvöllum. Flestar eru ferðirnar frá Gatwick, þaðan sem öll félögin fljúga nema British Airways. Breska félagið sinnir Íslandi frá City flugvelli og Heathrow en til þess síðarnefnda hefur Icelandair flogið tvisvar á dag um langt skeið og gerir enn. Luton flugvöllur er svo sá fjórði í nágrenni við London sem hefur Íslandsflug boðstólum og það á vegum easyJet.

En það eru ekki bara ódýrt að fljúga til London á næstunni því hótelstjórar í borginni eru líka til í að veita væna afslætti. Leitin að þeim getur hins vegar verið tímafrek því úrvalið getur verið yfirþyrmandi á hótelsíðum eins og Booking.com og Hotels.com á meðan Tablet Hotels fókusar á nokkur hótel sem sjaldnast eru hluti af stórum hótelkeðjum.