Rétt um þúsund fengu leyfi fyrsta árið

Frá og með síðustu áramótum hefur sú krafa verið gerð að allir þeir sem selja út heimagistingu til ferðamanna fái til þess leyfi. Nú í árslok eru leyfisveitingarnar orðnar 1069 talsins sem er um fimmtungur af öllum þeim gistirýmum sem bandaríska gistimiðlunin Airbnb hefur á sínum snærum á íslenska markaðnum.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Í byrjun árs tóku í gildi nýjar reglur um skammtímaleigu á íbúðahúsnæði sem takmarka útleigu við 90 daga á ári og mega tekjurnar af starfseminni ekki fara yfir 2 milljónir yfir árið. Einnig er nú gerð sú krafa að einstaklingar sem bjóða heimagistingu skrái sig hjá sýslumanni. Þeir sem það ekki gera og halda áfram að stunda skammtímaleigu án skráningar eiga von á stjórnvaldssekt og getur upphæð hennar numið allt að einni milljón króna.

Þrátt fyrir að sektin geti orðið svona há þá er ljóst að margir leigja út án leyfis. Því nú þegar árið er nærri liðið þá hafa aðeins 1069 fengið leyfi til heimagistingar en samkvæmt Mælaborði ferðaþjónustunnar þá voru allt að 4500 íslenskir leigusalar á skrá hjá bandarísku gistimiðluninni Airbnb í ár. Gera má ráð fyrir að hluti af þessum hópi leigusala séu fyrirtæki með rekstrarleyfi sem ekki þurfa að skrá sig fyrir heimagistingu. Engu að síður er ljóst að mjög margir einstaklingar bjóða í dag gistingu í gegnum Airbnb án leyfis. Skýrt dæmi um það er sú staðreynd að skráningarnúmerin frá sýslumanni eru ekki sjáanleg í auglýsingum á íslensku húsnæði á Airbnb en samkvæmt reglum um heimagistingu ber leigusölum að birta leyfisnúmerin þar. Túristi hefur farið í gegnum tugi auglýsinga hjá Airbnb og hvergi fundið leyfisnúmer. Það ætti hins vegar að vera einfalt verk fyrir leigusala að setja þessi númer inn í auglýsingar sínar líkt og talsmaður bandaríska fyrirtækisins benti á í viðtali við Túrista í byrjun árs.

Þess ber að geta að þegar reglurnar um heimagistingu voru innleiddar í byrjun árs þá var rekstrarleyfi frá heilbrigðisnefnd forsenda fyrir skráningu hjá sýslumanni. Sú krafa var umdeild meðal annars vegna þess að afgreiðslutími vottorða frá heilbrigðisnefnd getur verið langur og kostar þau hátt í 50 þúsund krónur. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði að til að mynda að innleiðing nýju reglnanna hefði valdið vonbrigðum. Krafan um heilbrigðisvottorð var svo felld niður þann 1. júlí til að einfalda leyfisveitingar til heimagistingar en árlegt skráningargjald til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sem sér um eftlitlit með heimagistingu, er um 8 þúsund krónur.