Reykjavík ævintýra- og vetraráfangastaður Evrópu

Að mati dómnefndar ferðarits með fókus á lúxusferðamennsku þá skarar íslenska höfuðborgin fram úr.

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson/Höfuðborgarstofa

Reykjavík var valin Ævintýraáfangastaður Evrópu fyrir árið 2018 af fagtímaritinu Luxury Travel Guide og er þetta annað árið í röð sem þetta virta tímarit verðlaunar Reykjavík sem áfangastað en borgin var valin Vetraráfangastaður Evrópu á þessu ári. Dómnefnd LTG er skipuð fagfólki á ýmsum sviðum ferðaþjónustunnar og í umsögn kemur fram að Reykjavík sé menningarborg, í stórbrotnu landslagi með norðurljósadýrð og fjölbreytta afþreyingu. Fjölskylduferð til Reykjavíkur sé uppskrift að spennandi ævintýrum og einstökum minningum sem enginn eigi að láta fram hjá sér fara samkvæmt því sem segir í fréttatilkynningu frá Höfuðborgarstofu.

„Það er mikill heiður fyrir Reykjavíkurborg að skara fram úr með þessum hætti á alþjóðavísu.  Fagtímaritið Luxury Travel Guide veitir nú borginni viðurkenningu annað árið í röð og ljóst að sú framþróun sem hefur orðið síðustu ár á áfangastaðnum Reykjavík vekur heimsathygli. Þetta er jafnframt viðurkenning á þeim árangri sem við höfum náð í kynningu og markaðssetningu á borginni þar sem áherslan hefur verið á að kynna þá fjölbreyttu afþreyingu  og menningu sem er til staðar. Þetta er einnig mikil viðurkenning fyrir ferðaþjónustuna hér á landi,“ segir Áshildur Bragadóttir, forstöðukona Höfuðborgarstofu, í tilkynningu.

Luxury Travel Guide er tímarit um lúxusferðamennsku sem fer til 500 þúsund áskrifenda. Þar er að finna fréttir, greinar og umsagnir um fyrirtæki, stofnanir og áfangastaði sem bjóða uppá ferðaþjónustu. Á hverju ári veitir tímaritið viðurkenningar til þeirra sem það telur að hafi skarað framúr á hinum ýmsu sviðum ferðamennskunnar.