Séríslensk jólahefð á undanhaldi

Til Íslands komst enginn fljúgandi á jóladag og héðan fór ekki heldur neinn en nú eru breyttir tímar.

Mynd: Isavia

Í dag verður boðið upp á tugi áætlunarferða frá Kaupmannahafnarflugvelli og dagskráin er álíka frá hinum stóru flugvöllunum í löndunum í kringum okkur. Og þannig hefur það jafnan verið á jóladag en hins vegar hafa flugsamgöngurnar lengst af legið niðri þennan dag á Keflavíkurflugvelli.  Á því varð þó breyting á jóladag árið 2014 þegar þurfti að kalla út starfsfólk Keflavíkurflugvallar þegar easyJet stóð fyrir áætlunarferð hingað frá Genf. Í hittifyrra voru hins vegar engar ferðir í boði en í fyrra var flugumferðin óvenjumikil þegar flogið var héðan til New York, Berlínar og Dusseldorf. Í dag er úrvalið álíka því hingað kom þota Delta Air Lines frá New York í morgun og um hádegið stendur SAS fyrir ferðum hingað til og frá Ósló og Kaupmannahöfn. Íslensku flugfélögin gera hins vegar hlé á sinni dagskrá í dag.

Þeir sem taka skyndiákvörðun og ákveða að panta sér flugmiða til Skandinavíu upp úr hádegi mega gera ráð fyrir því að borga um 35 til 43 þúsund krónur fyrir farið, aðra leið.

Á morgun komast flugsamgöngur svo í samt horf með fjölda mörgum ferðum.