Styttist í skilafrest í Startup Tourism

Tíu fyrirtæki fá stuðning til að framkvæma góða hugmynd sem tengist ferðageiranum.

Þátttakendur í síðasta Startup Tourism. Mynd: Startup Tourism

Markmið Startup Tourism er að hvetja til nýsköpunar á sviði ferðaþjónustu, styrkja stoðir nýrra fyrirtækja, fjölga afþreyingarmöguleikum og stuðla að dreifingu ferðamanna víðsvegar um landið, allan ársins hring. Óskað er eftir ferskum hugmyndum að afþreyingu eða nýjum lausnum sem styrkt geta innviði greinarinnar en Startup Tourism hefst á ný í janúar 2018, en opið er fyrir umsóknir til og með 11. desember n.k.  Um er að ræða tíu vikna viðskiptahraðal sem er sniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Ár hvert eru tíu fyrirtæki valin til þátttöku. Þau fá aðgang að fullbúnu skrifstofurými meðan á verkefninu stendur og gefst kostur á að njóta fræðslu og þjálfunar og þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta, lykilaðila á sviði ferðaþjónustu og annarra sérfræðinga og stjórnenda, þeim að kostnaðarlausu. Meðal fyrirtækja sem tekið hafa þátt í Startup Tourism eru Buubble, Bergrisi, The Cave People, og Myshopover.

Áhugasamir geta sent inn umsóknir í gegnum vefsíðu verkefnisins startuptourism.is. Bakjarlar þess eru Isavia, Íslandsbanki, Bláa Lónið og Vodafone, en Icelandic Startups og Íslenski ferðaklasinn sjá um framkvæmd verkefnisins.