Áfram hrókeringar hjá Icelandair

Stjóraskipti hafa verið tíð hjá Icelandair síðustu misseri og í gær var nýtt skipulag kynnt og ný framkvæmdastjórn tók við. Í henni sitja fleiri konur en áður.

icelandair 767 757
Mynd: Icelandair

Því fer fjarri að umsvif Icelandair Group einskorðist aðeins við flugrekstur eða flugfélagið sem samsteypan er kennd við. Í gegnum dótturfélög sín er fyrirtækið til að mynda stórtækt í innanlandsflugi, hótelrekstri, skipulagningu Íslandsferða, fraktflutningum, leiguflugi, flugvallarþjónustu og sölu utanlandsferða. Og síðustu ár hafa stjórnendur þessara dótturfyrirtækja setið í framkvæmdastjórn Icelandair Group en svo verður ekki lengur. Nema að hluta til því samkvæmt tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í gær verður ný framkvæmdastjórn að mestu skipuð helstu stjórnendum flugfélagsins Icelandair. Ástæðan er sögð sú staðreynd að flugstarfsemin vegur þyngst í rekstri samsteypunnar.

Þessar umstalsverðu breytingar koma ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti því í nóvember síðastliðnum var tilkynnt að yfirstjórn Icelandair Group og Icelandair yrði sameinuð og þá lét Birkir Hólm Guðnason af starfi sem framkvæmdastjóri og Björgólfur Jóhannsson tók við stjórnartaumunum. Á sama tíma var fjármálasvið samsteypunnar og flugfélagsins sameinað undir stjórn Boga Nils Bogasonar. Í aðdraganda breytinganna sem kynntar voru í gær þá sagði Svali Björgvinsson upp starfi sínu sem mannauðsstjóri fyrirtækisins og við því tók Elísabet Helgadóttir en hún kemur frá Íslandsbanka. Auk Elísabetar hefur Birna Ósk Einarsdóttir ráðið sig til Icelandair sem yfirmaður viðskiptaþróunar en hún hafði áður þann titil hjá Landsvirkjun. Elísabet og Birna Ósk taka sæti í nýju framkvæmdastjórninni og verða konunar í henni þar með þrjár því þar situr áfram Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair hótelanna. En Magnea var áður eina konan í framkvæmdastjórn Icelandair Group.

En það er ekki aðeins yfirstjórn Icelandair sem hefur verið stokkuð upp að undanförnu því síðastliðið sumar voru gerðar umtalsverðar breytingar á sölu- og markaðssviði félagsins þegar Guðmundur Óskarsson tók við því og stuttu síðar var erlendum söluskrifstofum félagsins lokað. Flestar þeirra höfðu verið starfræktar í áratugi og færðist hluti af störfunum í aðalskrifstofur Icelandair við Reykjavíkurflugvöll.
Guðmundur situr einnig í framkvæmdastjórninni sem kynnt var í gær og þar eiga líka sæti nafnarnir Jens Bjarnason og Jens Þórðarson og Gunnar Már Sigurfinnson frá Icelandair Cargo.