Ein þekktasta fréttakona Bretlands lofar Bláa lónið

Það er ekki annað að sjá en að Íslandsferð Kay Burley í nóvember hefur verið vel lukkuð.

Mynd: Bláa lónið

Hann var kaldur nóvembermorguninn sem Kay Burley, fréttaþulur Sky sjónvarpsstöðvarinnar, valdi til að heimsækja Bláa lónið. Hún segist því gengið skjálfandi í átt að vatninu en hafi náð kjarnhita um leið og komið var ofan í heitt lónið. Burley þessi segir frá Íslandsferð sinni í grein í breska blaðinu Daily Mail og það fer ekki á milli mála að Bláa lónið hefur verið hápunktur ferðalagsins. Ekki bara hitastig vatnsins heldur líka umhverfið í kring. Og Burley segir það fullvíst að hún muni minnast hins frábæra nuddtíma sem hún fékk í lóninu um aldur og ævi.

Fréttakonunni þótti það einnig til fyrirmyndar að starfsfólk Bláa lónsins bjóðist til að taka myndir af baðgestunum án þess að taka krónu fyrir. Hins vegar sveið Burley undan reikningnum á reykvískum bar þar sem hún pantaði sér gin og tóník og sömuleiðis var hádegismaturinn  of dýr að hennar mati. Hún áréttar því fyrir lesendum Daily mail að Ísland sé dýr áfangastaður jafnvel þó þar megi finna gistingu í öllum verðflokkum.

Burley lofar einnig gullna hringinn sem hún segir að bjóði upp á stórbrotið landslag. Hins vegar virðist norðurljósaferðin hafa reynt á þolinmæði hennar þó á endanum hafi sést örla fyrir ljósasýningu á himninum.

Skjámynd: Daily Mail
Skjámynd: Daily Mail