Farþegafjöldinn hjá Icelandair hefur tvöfaldast á 5 árum

Í fyrra flutti Icelandair rétt rúmlega 4 milljónir farþega og hefur talan hækkað hratt síðustu ár.

icelandair 757 a
Mynd: Icelandair

Farþegum Icelandair fjölgaði um tíund á nýliðnu ári og voru þeir samtals rétt rúmlega fjórar milljónir. Aldrei áður hafa jafn margir nýtt sér áætlunarflug félagsins en vöxtur þess hefur verið hraður síðustu ár. Í árslok 2012 fagnaði Icelandair því til að mynda sérstaklega að hafa í fyrsta skipti flogið með tvær milljónir farþega. Nú fimm árum síðar hefur fjöldinn tvöfaldast og áætlanir forsvarsmanna Icelandair gera ráð fyrir áframhaldandi vexti á þessu ári. Þá hefur félagið t.d. áætlunarflug til Dublin á Írlandi og bandarísku borganna Cleveland og Dallas. Eins er skammt síðan að félagið fór jómfrúarferð sína til Tegelflugvallar í Berlín.

Allt árið í fyrra var sætanýtingin í áætlunarflugi Icelandair 82,5% sem er örlítil bæting frá árinu 2016 samkvæmt kauphallartilkynningu. Á fyrri helmingi þessa árs tekur flugfélagið svo á móti þremur nýjum Boeing Max 8 þotum en í þeim eru sæti fyrir 160 farþega, til samanburðar rúma Boeing 757-200 þotur Icelandair 183 farþega. Það gæti því farið svo að nýju þoturnar verði þéttsettnari og sætanýting félagsins muni því hækka á þessu ári.