Farþegum fjölgaði mest á Akureyrarflugvelli

Fleiri fóru um stærstu innanlandsflugvelli landsins í fyrra og farþegafjöldinn var í heildina álíka og árið 2011.

flugvel innanlands isavia
Mynd: Isavia

Rétt um 25 þúsund fleiri farþegar fóru um innanlandsflugvellina í fyrra og þar af var aukningin langmest á Akureyrarflugvelli og nam hún nærri 17 þúsund farþegum. Á Reykjavíkurflugvelli fjölgaði farþegum um liðlega 8 þúsund en á Egilsstöðum um rúmlega tvö þúsund. Hins vegar fækkaði flugfarþegum á öðrum innanlandsflugvöllum álíka mikið og sem nam aukningunni á Egilsstöðum. Þetta kemur fram í flugtölum Isavia sem ná aftur til ársins 2011 en í þeim er umferðin eftir minni flugvöllunum tekin saman í eina stærð. Í heildina nam farþegafjöldinn á innanlandsflugvöllunum rétt um 822 þúsundum í fyrra en til samanburðar var hann nærri 835 þúsund árið 2011.

Aukningin á Akureyrarflugvelli í fyrra var um helmingi meiri en árið á undan og þar með fór fjöldi flugfarþega fyrir norðan á ný yfir 200 þúsund en það gerðist síðast árið 2011. Í febrúar í fyrra hófst nýtt áætlunarflug Air Iceland Connect milli Akureyrar og Keflavíkur, í tengslum við millilandaflug, sem skýrir væntanlega hluta af þessari miklu aukningu fyrir norðan. Gera má ráð fyrir að farþegafjöldinn þar taki ennþá stærra stökk í ár enda stendur nú breska ferðaskrifstofan Super Break fyrir beinu leiguflugi frá nokkrum breskum borgum til Akureyrar. Aukningin verður þó ekki eins mikil og gera mátti ráð fyrir því tvisvar sinnum hafa flugstjórar þotanna hætt við að lenda á Akureyri vegna veður og því haldið til Keflavíkurflugvallar. Þar með eru farþegarnir skráðir þar en ekki fyrir norðan.