Fyrsti breski hópurinn mættur til Akureyrar

Breska ferðaskrifstofan Super Break stendur fyrir fjórtán norðurljósaferðum um Norðurland á næstu viku og í gær kom fyrsti hópurinn til landsins.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra klipptu á borða með aðstoð frá Hugo Kimber stjórnarformanni Super Break. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Í sumar hóf breska ferðaskrifstofan Super Break sölu á sérstökum norðurljósaferðum um Norðurland nú í janúar og febrúar. Fljótlega kom í ljós að eftirspurnin eftir ferðunum var mikil og var brottförum fjölgað úr 8 í 14. Í hádeginu í gær lenti Boeing vél flugfélagsins Enter Air á Akureyrarflugvelli, með fyrstu bresku ferðamennina en þessar ferðir marka tímamót í ferðaþjónustu á Norðurlandi því Super Break áformar að fljúga til Akureyrar áfram næstu misserin og að miklu leyti á þeim tíma ársins sem hingað til hefur verið rólegri í ferðaþjónustu.

Bresku ferðamennirnir voru ánægðir þegar þeir lentu, en mikil ásókn hefur verið í þessar ferðir Super Break og hafa yfir 95 prósent flugsæta þegar verið seld samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands. Fyrsta ferðina var farin frá Cardiff í Wales en þar í borg spilar Akureyringurinn og landsliðsfyrirliðinn  Aron Einar Gunnarsson. Hann mun hafa nýtt tækifærið til að segja farþegunum frá Bjórböðunum á Árskógssandi en hann er einn af eigendum þeirra. Þá tók velskur kór nokkur falleg íslensk lög fyrir ferðalangana, eitt af þeim var Heyr himnasmiður, og hlaut lof fyrir.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, var að vonum mjög ánægð með daginn. „Við erum búin að vinna að þessu verkefni frá stofnun Flugklasans Air 66N árið 2011 og höfum verið að kynna Norðurland markvisst fyrir breskum ferðaskrifstofum og flugfélögum. Þetta flug er bara byrjunin og við eigum eftir að sjá aukningu í beinu flugi til Akureyrar á næstunni. Þessi árangur hefur náðst vegna þess að ferðaþjónustufyrirtæki og sveitarfélög á öllu Norðurlandi hafa staðið saman í þessu verkefni og haft óbilandi trú á því að Norðurland sé eftirsóknarverður og spennandi áfangastaður.“

Samkvæmt upplýsingum frá Markaðsstofu Norðurlands þá uppfylla ferðir Super Break öll skilyrði til að fá hámarks styrk úr Flugþróunarsjóðnum en hann var settur á laggirnar til að styrkja millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða.