Hátt í sex þúsund fundir haldnir í Laugardalshöll í dag

Ráðherra ferðamála og ferðamálastjóri heimsóttu Icelandair Mid-Atlantic ferðakaupstefnuna sem haldin er í 26. skipti.

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu, Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri  og Guðmundur Óskarsson, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs Icelandair. Mynd: Icelandair

Tengslin milli íslenskra og erlendra ferðaþjónustufyrirtækja eru efld á ferðakaupstefnu Icelandair sem nú stendur yfir.  Í dag hittust kaupendur og seljendur á ferðaþjónustu í Laugardalshöll á hátt í sex þúsund fundum en hver þeirra stendur yfir í hálftíma. Af samtölum Túrista við fjölda þátttakenda að dæma þá skiluðu fundarhöldin oftar en ekki góðum árangri sem er væntanlega ástæða þess að fyrirtækjum á ferðakaupstefnunni fjölgar ár frá ári en þetta er í 26. skipti sem hún er haldin.

„Þessi kaupstefna er einn helsti vettvangur ferðaþjónustunnar til að mynda tengsl við samstarfsaðila og kynna vöru sína beint fyrir kaupendum hennar. Mikill árangur og vöxtur ferðaþjónustunnar undanfarin ár er ekki tilviljun, heldur byggir á því að hafa frumkvæði að því að skapa ný viðskiptatækifæri. Kröftug þátttaka innlendra og erlendra aðila á Icelandair Mid-Atlantic er þess vegna mjög ánægjuleg”, segir Guðmundur Óskarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, í tilkynningu.

Ferðamálaráðherra ásamt ferðamálastjóra og forsvarsfólki atvinnugreinarinnar heimsóttu Laugardalshöllina í dag og heilsuðu upp sýnendur. Þeir komu þó ekki aðeins frá Íslandi heldur líka frá mörgum þeirra borga sem Icelandair flýgur til. Þannig voru mættir fulltrúar frá borgum eins og Cleveland og Dublin en Icelandair hefur flug til þessara tveggja borga í vor.