Hefja Íslandsflug frá Stokkhólmi

Forsvarsmenn norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian sjá tækifæri í að bæta við sjöundu flugleið fyrirtækisins frá Keflavíkurflugvelli.

Farþegar á leið milli Íslands og höfuðborgar Svíþjóðar hafa í dag úr að velja daglegum ferðum með Icelandair og fjórum brottförum í viku hjá WOW air. Frá og með vetrarlokum bætast við tvær ferðir í viku á vegum Norwegian, á mánudögum og föstudögum. Þar með bætist Arlanda flugvöllur í Stokkhólmi við sífellt stækkandi hóp erlendra flughafna sem geta boðið upp á Íslandsflug frá þremur eða fleiri flugfélögum. Í fréttatilkynningu frá Norwegian segir að það sé trú stjórnenda flugfélagsins að það sé mikill áhugi á meðal Svía að ferðast til Íslands og upplifa hina stórkostlegu náttúru landsins. Þess má geta að fréttatilkynningin var send út í morgun en í hádeginu hefst opinber heimsókn forseta Íslands til Svíþjóðar.

Norwegian hóf Íslandsflug í júní 2012 með áætlunarferðum hingað frá Ósló en stuttu síðar bættist við flug frá Bergen. Síðustu tvo vetur hefur félagið svo boðið upp á reglulegar ferðir frá Íslandi til Alicante, Madrídar, Barcelona og London. Stokkhólmur verður því sjöunda borgin sem bætist við leiðakerfi Norwegian frá Keflavíkurflugvelli.

Ódýrustu farmiðarnir með Norwegian til Stokkhólms kosta í dag tæpar 6 þúsund krónur en borga þarf aukalega fyrir innritaðan farangur líkt og þegar lægstu fargjöld Icelandair og WOW air eru bókuð. Þotur Norwegian munu taka á loft frá Keflavíkurflugvelli kl. 17:50 og lenda í Svíþjóð rétt rúmlega 11 að kveldi til.

Frá fimmtudegi til sunnudags er hægt að fá ódýrara far með Arlanda Express hraðlestinni frá flugvellinum og niður í bæ. Sjá hér