Hinsegin skíðafestival í Ölpunum.

Tíunda árið í röð er efnt til sérstakrar skíðaveislu í franska hluta fjallgarðsins.

Menn hika ekki við að vera léttklæddir í brekkunum í Les Menuires, alla vega á meðan hinsegin skíðavikan fer þar fram. Myndir: EGSW

Það stefnir í mikið fjör í franska skíðaþorpinu Les Menuires dagana 17. til 24. mars þegar von er á tólf hundruð manns til að taka þátt í Evrópsku hinsegin skíðavikunni. Þetta er í tíunda skipti sem hátíðin er haldin og af því tilefni lofa gestgjafarnir sérstaklega glæsilegri veislu og alls kyns skemmtun.

Það verður nefnilega ekki aðeins stuð í brekkunum heldur líka niðri í bæ og sérstaklega eftir að skyggja tekur. Dagskráin verður líka fjölbreytt, allt frá fondue kvöldi til Speedo partís eins og sjá má á heimsíðu hátíðarinnar.

Les Menuires er í 1850 metra hæð yfir sjávarmáli og liggur ekki ýkja langt frá flugvellinum í Genf. Það er þó ekki flogið beint frá Íslandi til svissnesku borgarinnar yfir veturinn en með því að nota leitarvél Momondo má finna heppilega ferðatilhögun.