„Hjarta Evrópu“ er komið á kortið á ný

Í sumar verður boðið upp á beint flug héðan til Lúxemborg en flugsamgöngurnar milli landanna tveggja hafa legið niðri í nærri tvo áratugi.

Mynd: Rowan Heuvel / Unsplash

Lúxemborg var á árum áður helsta samgöngumiðstöðin fyrir Íslandflug frá meginlandi Evrópu enda voru Loftleiðir þá stórtæk í sölu á flugi þangað frá Bandaríkjunum og var talað um smáríkið sem „hjarta Evrópu“ í auglýsingum flugfélagsins. Lúxemborg var einnig lengi hluti að leiðakerfi Icelandair en félagið hætti svo flugi þangað árið 1999 og var ferðunum fjölgað í staðinn til Frankfurt, Amsterdam og Parísar. Í hátt í 20 ár hefur því ekki verið boðið upp á beint flug milli Íslands og Lúxemborgar en á því verður breyting í sumar því þá munu þotur Luxair fljúga hingað vikulega frá 9. maí og fram til 27. júní. Ferðirnar eru því fáar og varla hægt að tala um áætlunarflug.

Samkvæmt athugun Túrista kosta ódýrustu fargjöldin með Luxair um 40 þúsund krónur, báðar leiðir.