Icelandair í 13.sæti í Kaupmannahöfn

Listinn yfir 20 umsvifamestu flugfélögin í stærstu flughöfn Norðurlanda hefur lítið breyst milli ára.

kaupmannahof farthegar
Farþegar á Kaupmannahafnarflugvelli. Mynd: Cph.dk

Frá Keflavíkurflugvelli er flogið allt árið um kring til um sextíu erlendra flughafna og flestar eru ferðirnar til Kaupmannahafnarflugvallar. Reyndar er oftar flogið til London en þar í borg dreifast ferðirnar á fimm mismunandi flugvelli og því er danski flugvöllurinn sá sem tekur við flestum þotum frá Íslandi. Og til marks um hve umferðin er mikil héðan til Kaupmannahafnar þá má kemst Keflavíkurflugvöllur reglulega á lista yfir þá 10 áfangastaði sem flestir farþegar flugu til frá Kastrup. Það var til að mynda raunin í nýliðnum desember og líka síðastliðið sumar.

Umsvif Icelandair á Kaupmannahafnarflugvelli er svo annað dæmi um hvað Íslandsflug vegur þungt á þessum fjölfarnasta flugvelli Norðurlanda. Icelandair hefur nefnilega lengi verið eitt af 20 stærstu flugfélögunum á Kastrup og á því varð ekki breyting í fyrra. Þá stóð farþegafjöldinn á þessari flugleið nærri því í stað hjá Icelandair en félagið var engu að síður þrettánda umsvifamesta flugfélagið á flugvellinum í Kaupmannahöfn þegar litið er til fjölda farþega. Hástökkvarinn á listanum er svo Primera Air sem eru í eigu íslenskra aðila þó það sé skráð annars staðar.

Ekki fengust upplýsingar um farþegafjölda WOW air á Kaupmannahafnarflugvelli. Í svari talsmanns flugvallarins, við fyrirspurn Túrista, segir að aðeins séu veittar upplýsingar um farþegafjölda 20 stærstu flugfélaganna.