Icelandair snýr aftur til Baltimore og mætir þar WOW air

Flugfélagið sér hag í að bæta við ferðum til höfuðborgarsvæðis Bandaríkjanna og tekur því upp þráðinn á Baltimore-Washington flugvelli. En þangað hefur WOW air flogið síðustu ár.

Frá Baltimore. Mynd: Icelandair

Fyrir rúmum áratug lagði Icelandair niður áætlunarferðir sínar til Baltimore-Washington flugvallar en hóf svo að fljúga til Washington Dulles árið 2011. En báðir þessir flugvellir liggja í um 40 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborg Bandaríkjanna. Forsvarsmenn Icelandair sjá nú tækifæri í að hefja áætlunarflug á ný til Baltimore og mun félagið bjóða upp á reglulegar ferðir þangað frá sumarbyrjun og fram á haust samkvæmt tilkynningu frá félaginu. „Með fluginu til Baltimore (BWI flugvöll)  erum við að auka framboð okkar inn á hið fjölmenna Washington/Baltimore svæði, en við fljúgum nú þegar á Dulles flugvöllinn í Washington. Við lítum á þetta sem eitt markaðssvæði, þarna búa um 10 milljónir íbúa og höfuðborgin er að sjálfsögðu mikil miðstöð stjórnsýslu og viðskipta í Bandaríkjunum“, segir Björgólfur Jóhannson, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.

Um 70 kílómetrar eru á milli flugvallanna tveggja og er þetta fjórða stórborgarsvæðið sem Icelandair þjónar með flugi á tvo flugvelli. Nú þegar er boðið upp á flug til JFK og Newark flugvallanna í New York, til Heathrow og Gatwick í London og til Charles De Gaulle og Orly flugvallanna í París.

Þegar WOW air hóf svo að fljúga til Bandaríkjanna í sumarbyrjun árið 2015 var Baltimore-Washington flugvöllur annar af tveimur áfangastöðum félagsins vestanhafs og á fyrri helmingi síðasta árs nýttu um 57 þúsund farþegar sé flug WOW á flugleiðinni. Til samanburðar flaug Icelandair með um 10 þúsund færri farþega milli Keflavíkurflugvallar og Washington Dulles samkvæmt tölum sem Túristi hefur frá Samgöngustofu Bandaríkjanna. Hins vegar framboðið hjá WOW air meira og sætanýting félaganna tveggja var nærri sú sama eða rétt um 80 prósent í ferðunum til og frá Washingtonsvæðinu.

Baltimore-Washington er ekki eina bandaríska flughöfnin sem bætist við leiðakerfi Icelandair á næsta ári því í gær tilkynnti félagið um nýtt áætlunarflug til Kansas City. Icelandair fer svo jómfrúarferðir sínar til Dallas og Cleveland í maí nk.