Icelandair til San Francisco í sumarbyrjun

Forstjóri flugfélagsins boðar markaðssókn í Bandaríkjunum á þessu ári með fimm nýjum áfangastöðum.

Powell stræti í San Francisco. Mynd: Ragnar Vorel / Unsplash

Á þriðjudaginn tilkynnti Icelandair áform sín um að hefja flug til Kansas City og í gær bætti félagið Baltimore við leiðakerfi sitt. Seinnipartinn í dag var hulunni svo svipt af þriðja nýja áfangastaðnum, San Francsico í Kaliforníu.  Þar með hefur flugleiðum félagsins til Norður-Ameríku fjölgað úr tuttugu í 23 í þessari viku en það eru jafn mikið úrval af bandarískum og kanadískum áfangastöðum og hið þýska Lufthansa býður upp á. British Airways er hins vegar umsvifamesta evrópska flugfélagið vestanhafs en þotur þess hafa viðkomu á 29 flugvöllum í N-Ameríku en svo koma Icelandair og Lufthansa með 23 hvort félag.

„San Francisco er þriðja nýja borgin sem við kynnum á jafnmörgum dögum í þessari viku í tengslum við þessa markaðssókn í Bandaríkjunum“, segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair. „Þetta eru ólíkir áfangastaðir sem undirstrika hina miklu breidd sem er í leiðakerfinu og þjónustu okkar. San Francisco opnar nýja leið inn á hinn risastóra Kaliforníumarkað á vesturströndinni og flug á Baltimoreflugvöll styrkir stöðu okkar á Washington/Baltimore svæðinu á austurströndinni. Kansas City, stór borg í miðjum Bandaríkjunum, opnar svo áður lokaða markaði fyrir íslenska ferðaþjónustu og tengiflug okkar til og frá Evrópu. Jafnframt þessari auknu þjónustu við nýjar borgir þá færum við framboð af nokkrum öðrum áfangastöðum þannig að heildarflugframboð Icelandair 2018 er það sama og áður hefur verið kynnt, en við aukum með þessu hagkvæmni leiðakerfisins og styrkjum samkeppnisstöðu félagsins,“ segir Björgólfur í tilkynningu. Af þessum orðum forstjórans má ráða að félagið hafi fækkað ferðum til annarra áfangastaða til að rýma fyrir fluginu til Kansas, Baltimore og nú San Francisco.

Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Icelandair flýgur til San Francisco því þotur félagsins flugu þangað tvö sumur fyrir rúmum áratug en borgin er ein þekktasta og vinsælasta ferðamannaborg í heimi. Hún er jafnframt ein af fjölmennustu borgum Bandaríkjanna með um 9 milljónir íbúa á San Francisco Bay Area svæðinu. WOW air hefur flogið til San Francisco allt árið um kring frá þar síðasta sumri.