Íslenskar flugrútur dýrari en ódýrara að leggja einkabíl

Verðlagning á rútum og bílastæðum er þveröfug hér á landi miðað við það sem þekkist höfuðborgum Noregs og Svíþjóðar.

Mynd: Isavia

Það er álíka langt frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar og það er frá miðborgum Óslóar og Stokkhólms út á flugvellina við Gardermoen og Arlanda. Og þrátt fyrir að það gangi hraðlestir til og frá þessum skandinavísku flugvelli þá standa flugfarþegum þar líka til boða rútuferðir. Þó fyrir nokkur lægra gjald en þekkist hér á landi. Þannig kostar farmiði, báðar leiðir, 2.530 kr. til og frá Arlanda flugvelli í Stokkhólmi en á bilinu 3.400 til 4.160 krónur í Ósló. Ódýrasta farið, báðar leiðir, til og frá Keflavíkurflugvelli er hjá Gray Line/Airport Express og kostar það 3.900 krónur en 4.900 með Flugrútunni og 5.490 krónur hjá Hópbílum/Airport Direct. Til samanburðar þá kostar miði með hraðlestinni frá Heathrow flugvelli 5.440 krónur, báðar leiðir.

Dýrustu rútumiðarnir frá Leifsstöð eru hjá fyrirtækjunum tveimur sem buðu best í útboði Isavia á stæðunum sem eru beint fyrir framan komusal flugstöðvarinnar. En líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku á hafa farmiðarnir hækkað úr 2.500 kr. í 2.700 kr. hjá Flugrútunni og Hópbílar/Airport Direct munu rukka 2.990 krónur frá og með 1. mars þegar akstur hefst samkvæmt skilmálum útboðsins.

Á sama tíma og farmiðar í rúturnar hér verður almennt dýrara en þekkist á Ósló og Stokkhólmi þá kostar nokkru minna að leggja bíl við Leifsstöð en við flugvellina í hinum borgunum tveimur. Bílastæði í eina viku kostar 8.300 krónur við Leifsstöð ef bókað á netinu á meðan bílastæði í álíka göngufjarlægt frá Arlanda flugstöðinni kostar 10.220 kr. en 12.940 kr. við Gardermoen. Við báðar flugstöðvar eru líka í boði ennþá dýrari bílastæði en líka ódýrari en þá þurfa farþegarnir að taka strætó í korter frá bílastæðinu og að flugstöðinni.