Kalla eftir eflingu landsbyggðarflugvalla

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar segir það ólíðandi að millilandaflugi til og frá Akureyrarflugvelli sé stefnt í voða vegna aðstöðuleysis.

akureyri egilsstadir
Flugstöðvarnar við alþjóðaflugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Mynd: Isavia

Síðastliðinn hálfan mánuð hefur það gerst tvívegis að flugmenn farþegaþota hafa hætt við að lenda á Akureyrarflugvelli vegna veðurs og þess í stað haldið til Keflavíkurflugvallar með hópa breskra ferðamanna. Skorti á sérstökum lendingarbúnaði er kennt um að flugmennirnir gátu ekki lent á Akureyri þrátt fyrir slæmt skyggni. Forsvarsfólk ferðamála fyrir norðan lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðunni í vikunni en von er um 2.500 breskum ferðamönnum í sérstakar norðurljósaferðir um Norðurland nú í janúar og febrúar.

Í tilkynningu sem stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar sendi frá sér í dag er tekið undir kröfuna um að aðbúnaðurinn á Akureyrarflugvelli verði bættur, til að mynda með uppsetningu lendingarbúnaðar og stækkun flugstöðvarinnar. „Það er ólíðandi að millilandaflugi til og frá Akureyri, sem unnið hefur verið markvisst að á vettvangi ferðaþjónustunnar og stjórnvalda sé stefnt í voða með þessum hætti. Auk þess að setja upp svokallaðan ILS aðflugsbúnað fyrir aðflug úr norðri á Akureyrarflugvelli þarf að ráðast í að bæta flughlað og huga að stækkun á flugstöðinni þannig að hægt sé að sinna millilandaflugi og þjónustu við flugfarþega með viðunandi hætti. Í þessu samhengi er minnt á mikilvægi Akureyrarflugvallar sem varaflugvallar fyrir millilandaflug,“ segir í tilkynningunni.

Þar er jafnframt bent á að Samtök ferðaþjónustunnar hafi ítrekað bent á að viðhaldi flugvallarmannvirkja og endurnýjun flugleiðsögubúnaðar sé ábótavant og hefur svo verið um langt árabil. „Ljóst er að til að sinna lágmarksviðhaldi á þeim 13 flugvöllum, öðrum en Keflavíkurflugvelli, sem innanlandsflug er stundað á, vantar, þegar á þessu ári, um 400 milljónir króna skv. nýsamþykktum fjárlögum. Við óbreytt ástand verður ekki unað, enda óásættanlegt fyrir ferðamenn, innlenda jafnt sem erlenda, að flugsamgöngum sé ógnað með þessum hætti og kerfinu leyft að grotna niður. Til að hægt sé að nýta þau tækifæri sem felast í beinu millilandaflugi, bæði á Norður- og Austurlandi yfir vetrarmánuðina verða innviðir að vera fullnægjandi. Um leið eflist innanlandsflug hér á landi.“