Keflavíkurflugvöllur stingur Gautaborg og Bergen af

Í hittifyrra komst íslenska flughöfnin í fimmta sæti yfir fjölförnustu flugvelli Norðurlanda og nú hefur bilið niður í sjötta sætið breikkað ennþá meira. En það er líka langt upp í fjórða sætið.

kef farthegar
Frá brottfararsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Mynd: Isavia

Hátt í 8,8 milljónir farþega fóru um Keflavíkurflugvöll í fyrra og fjölgaði þeim um nærri 2 milljónir frá árinu 2016. Þó viðbótin sé hlutfallslega minni en í fyrra þá hefur þessi mikli vöxtur verið langtum meiri en á stærstu flugvöllum frændþjóðanna. Af þeim sökum hefur Keflavíkurflugvöllur farið hratt upp listann yfir 10 fjölförnustu norrænu flughafnirnar og þegar árið 2016 var gert upp var farþegafjöldinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrsta skipti meiri en í Landvetter í Gautaborg og Flesland í Bergen. Þar með skaust íslenska flugstöðin upp í fimmta sætið á Norðurlandalistanum og hefur, eftir hina miklu viðbót á nýliðnu ári, styrkst stöðu sína töluvert eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Hins vegar er langt í að Keflavíkurflugvöllur komst upp fyrir Vantaa í Helsinki en nærri 19 milljónir farþega fór um þá flugstöð í fyrra.

Það sem dregur hins vegar Keflavíkurflugvöll niður er sú staðreynd að hann er sá eini af norrænum flugvöllunum sem býður nær eingöngu upp á millilandaflug. Eina innanlandsleiðin sem starfrækt er frá Leifsstöð er flug Air Iceland Connect milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar en hún er aðeins fyrir farþega á leið í eða úr alþjóðaflugi.

Sem fyrr er Kaupmannahafnarflugvöllur stærsta flughöfn Norðurlanda en miðað við þróunin síðustu ár þá hefur því verið spáð að Óslóarflugvöllur gæti orðið stærri innan nokkurra ára.