Samfélagsmiðlar

Koma inn á markaðinn með dýrustu rútumiðana

Hópbílar áttu annað hæsta tilboðið í útboði Isavia á aðstöðu fyrir sætaferðir til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fyrirtækið hefur formlega akstur þann 1. mars og munu farmiðarnir verða 10 til 25% dýrari en hjá samkeppnisaðilunum.

Það voru stjórnendur Kynnisferða og Hópbíla sem buðu hæst í útboði á aðstöðu fyrir sætaferðir frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fá fyrirtækin tvö því aðgang að sex rútustæðum við komusal flugstöðvarinnar frá og með 1. mars nk. Á sama tíma færast hópferðabílar Gray Line yfir á rútustæðið sem er handa við skammtímabílastæðið en í fyrrnefndu útboði buðust forsvarsmenn Gray Line til að greiða um fjórðung af veltu Airport Express til Isavia. Það var nokkuð undir hinum tilboðunum tveimur því forsvarsmenn Kynnisferða buðu Isavia 41,2% af veltu Flugrútunnar, fyrir áframhaldandi veru í og við flugstöðina, á meðan Hópbílar munu greiða þriðjung af sinni veltu.

Í útboðinu var einnig gerð krafa um lágmarksgreiðslu á hverju ári og hvernig sem gengur þá munu Kynnisferðir þurfa að greiða árlega nærri 158 milljónir til Isavia og greiðsla frá Hópbílum verður aldrei minni en 127 milljónir á ári. Þetta eru umtalsvert hærri álögur en hafa verið á sætaferðunum hingað til og í kjölfar útboðsins sagði þáverandi forstjóri Kynnisferða, í viðtali við Túrista, að óumflýjanlegt væri að farmiðar Flugrútunnar myndu hækka.

Það gekk eftir í haust þegar fargjald Flugrútunnar hækkaði um 200 krónur í 2.700 kr. Og miðað við verðskrá á heimasíðu Airport Direct, sem mun sjá um sætaferðirnar fyrir Hópbíla, þá mun miðinn þar kosta 2.990 krónur. Það er sama verð og fyrirtækið rukkar í dag fyrir skutl frá Keflavíkurflugvelli og að hóteli. Þess háttar þjónusta hjá Airport Direct mun hins vegar hækka í 3.990 krónur þegar fyrirtækið fær aðgang að stæðunum við Leifsstöð um þarnæstu mánaðarmót. Nemur hækkunin þriðjungi sem er nákvæmlega sama hlutfall og fyrirtækið mun greiða til Isavia af öllum akstri frá flugstöðinni. Túristi hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum um verðstefnu Airport Direct og Hópbíla og eins upplýsingum um hvaðan á höfuðborgarsvæðinu rútur fyrirtækisins munu keyra en engin svör hafa fengist.

Þrátt fyrir að Gray Line missi aðstöðuna beint fyrir framan komusal Leifsstöðvar þá hafa forsvarsmenn fyrirtækisins boðað áframhaldandi sætaferðir undir merkjum Airport Express. Þar kostar stakur farmiði 2.400 krónur og mun verðið haldast óbreytt samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu. Þrátt fyrir að þann 1. mars verða sett á ný bílastæðagjöld á hinu almenna rútustæði og mun þá kosta 19.900 krónur að keyra hefðbundinn hópferðabíl inn á stæðið. Forsvarsmenn Gray Line hafa kært þá verðlagningu til Samkeppniseftirlitsins og bent á að þessi verðlagning sé margfalt hærri en tíðkast í löndunum í kringum okkur.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Túristi hefur fengið frá Swedavia, hinu opinbera fyrirtæki sem rekur stærstu flugvellina í Svíþjóð, þá tíðkast það ekki að rukka hópferðabíla fyrir aðstöðu við flugstöðvar. Á Óslóarflugvelli er gjaldið um 1000 íslenskar krónur og þar fá allar rútur 15 mínútur til að sækja farþega sína og þá beint fyrir framan inngang flugstöðvarinnar. Hins vegar er mun dýrara að leggja einkabílum á langtímabílastæði við norrænu flughafnirnar en við Keflavíkurflugvöll. Verðlagningin er því öfug hér á landi og á sama tíma eru rútuferðirnar dýrari sem er líklega ein helsta skýringin á því að hlutfall íslenskra farþega í flugrútunum er mjög lágt samkvæmt því sem Túristi kemst næst.

Auk rútufyrirtækjanna þá býður Strætó upp á reglulegar ferðir til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar en áætlunin hentar t.a.m. ekki fyrir þá sem eru á leið í morgunflug frá landinu.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …