Lækka fargjaldið í jómfrúarferðina frá Íslandi um rúmlega helming

Stærsta flugfélag í heimi hefur Íslandsflug í sumar og farmiðaverðið hefur tekur töluverðum breytingum síðustu vikur.

Mynd: American Airlines

Bæði WOW air og Icelandair ætla að hefja áætlunarflug héðan til Dallas í Texas nú í vor og hófu félögin sölu á farmiðum í þessar ferðir í september. Tveimur mánuðum síðar tilkynntu forsvarsmenn American Airlines, stærsta flugfélags í heimi, að í sumar myndu þotur félagsins fljúga daglega til Íslands frá Fort-Worth flugvelli í Dallas en þar er helsta starfsstöð fyrirtækisins. Í kjölfar þess gerði Túristi verðkönnun sem sýndi að fargjöld American Airlines voru í sumum tilvikum allt að þrefalt hærri en það verð sem var í boði hjá íslensku flugfélögunum. Ástæðan fyrir þessum mikla verðmun var, að sögn talsmanns bandaríska flugfélagsins, sú að verðstefnan getur verið ólík eftir mörkuðum og þannig væru fargjöldin á flugleiðinni mun ódýrari fyrir þá farþega American Airlines sem hefja ferðalagið í Dallas en dýrara fyrir þá sem koma frá Íslandi.

Nú tveimur mánuðu síðar er ekki annað að sjá en að stjórnendur American Airlines hafi gert verulegar breytingar á verðlagningu á Íslandsflugi sínu. Þannig hefur farmiðinn í jómfrúarferðina frá Íslandi 8.júní og tilbaka viku síðar lækkað um nærri sextíu af hundraði. Fargjöldin í júlí og ágúst hafa líka lækkað eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Á sama tíma og verðið hefur lækkað hjá American Airlines þá hefur það hækkað hjá bæði Icelandair og WOW og nú er staðan sú að bandaríska flugfélagið býður best í annarri viku júní. Hins vegar er American Airlines dýrari kostur þá daga sem kannaðir voru í júlí og ágúst en miðað við verðsveiflurnar undanfarið er ekki útilokað að flugfargjöld á hinni nýju flugleið milli Íslands og Texas eigi eftir að lækka því framboðið er mikið, alls fjórtán ferðir í viku.

Bæði Icelandair og WOW air bjóða upp á farmiða án heimildar fyrir innritaðan farangur og eru þau lægri. Í töflunni hér fyrir neðan eru þessir farmiðar innan sviga.