Mikill fjöldi fylgir íslensku flugfélögunum á samfélagsmiðlunum

Ríflega hálf milljón notenda Facebook lætur sér líka við Facebook síður Icelandair og WOW air en töluvert munar á notendafjöldanum á Twitter og Instagram.

icelandair wow
Myndir: Icelandair og WOW air

Samfélagsmiðlarnir nýtast flugfélögum ekki aðeins til að koma auglýsingum og kynningum á framfæri heldur líka skilaboðum til farþega, til að mynda þegar flugáætlun fer úr skorðum. En samskiptin virka á báða vegu og því geta farþegarnir líka sent ábendingar og kvartanir á flugfélögin í gegnum miðlana. Og margir nýta sér það eins og sjá má á Facebook og Twitter síðum Icelandair og WOW air en þar fara samskiptin oft fram fyrir opnum tjöldum.

Og það er ekki annað að sjá en að stjórnendur íslensku flugfélaganna tveggja leggi mikla áherslu á að ná til sem flestra á samfélagsmiðlunum. Flestir eru fylgjendurnir á Facebook eða ríflega hálf milljón hjá hvoru flugfélagi fyrir sig. Á Instagram og Twitter er hylli Icelandair þó mun meiri eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.