Miklar sveiflur í fjölgun ferðamanna á milli mánaða

Síðasta ár byrjaði með mikilli aukningu í komum erlendra ferðamanna en í vöxturinn í desember var sá minnsti sem mælst hefur í sex ár.

Mynd: Iceland.is

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um nærri fjórðung í fyrra og voru þeir samtals 2,2 milljónir. Er þá litið til talningar Ferðamálastofu á öllum þeim útlendingum sem fara í gegnum vopnaeftirlitið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Bandaríkjamenn voru langflestir í þessum hópi því fjórði hver ferðamaður sem heimsækir Ísland kemur þaðan og rekja má nærri helming af fjölgun ferðafólks hér á landi í fyrra til íbúa Norður-Ameríku.

Viðbótin í ferðamannastraumnum á nýliðnu ári var þó mjög ójöfn eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Í janúar fjölgaði ferðafólkinu um þrjá fórðu en minnst var aukningin í desember að innan við 9 af hundraði. Leita þarf aftur til nóvember 2011 til að finna hlutfallslega jafn litla aukningu. Þess ber að geta að í vöxturinn í lok ársins 2016 var mjög mikill líkt og fyrstu mánuði 2017 en ef spá Isavia fyrir árið 2018 gengur eftir þá mun ferðafólki hér á landi fjölga um fimmtung í janúar og febrúar.

Sem fyrr segir þá fer talning Ferðamálastofu fram við öryggishliðin í Leifsstöð og þar með eru útlendingar búsettir á Íslandi og svokallaðir sjálftengifarþegar taldir sem erlendir ferðamenn. Túristi benti á það í byrjun árs að þetta gæti valdið verulegri skekkju í þessari talningu sem verið hefur mest notaði mælikvarðinn á umsvif ferðaþjónustunnar. Í kjölfarið gerði Isavia kannanir sem sýndu að skekkja í talningunni var um 14% í júlí og 8% í nóvember. Ef þessi hlutföll eru yfirfærð á allt árið þá má gera ráð fyrir að erlendur ferðamennirnir hafi verið rétt um tvær milljónir í fyrra.