Næturflugum til Evrópu snarfækkar í sumar

Miðnætti hefur verið háannatími í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en svo er ekki lengur því tvær af hverjum þremur miðnæturbrottförum hafa horfið. Áhrifanna af þessu mun gæta mun víðar en í flugstöðinni sjálfri.

Mynd: Nils Nedel / Unsplash

Á hefðbundnu sumarkvöldi lenda á Keflavíkurflugvelli þotur nokkurra evrópskra flugfélaga sem fara svo í loftið á ný skömmu eftir miðnætti. Icelandair hefur einnig verið stórtækt á þessum tíma sólarhringsins og boðið upp á næturflug til nokkurra áfangastaða í Evrópum. Nú hafa stjórnendur Icelandair hins vegar flutt næturflugin til morguns og þar með fækkar næturferðunum frá Keflavíkurflugvelli um nærri helming. Í ofanálag hafa Airberlin og FlyNiki hætt starfsemi en bæði félög hafa nýtt næturnar fyrir Íslandsflug til Þýskalands og Austurríki. Þar með stefnir í að flugtraffíkin héðan upp úr miðnætti dragist saman um nærri tvo þriðju í sumar samkvæmt útreikningum Túrista.

Samdrátturinn er þó mismikill eftir vikudögum. Aðfaranótt föstudags er útlit fyrir að ferðirnar verði um helmingi færri á meðan aðeins ein brottför er eftir á dagskrá Keflavíkurflugvallar eftir miðnætti á miðvikudögum. Þess ber þó að geta að ennþá hefur sumaráætlun flugfélaganna ekki verið birt í endanlegri útgáfu og eitthvað gæti breyst á næstu dögum og vikum en það verður þó að teljast ólíklegt enda sala á farmiðum sumarsins löngu hafin.

Fyrir starfsfólk á Keflavíkurflugvelli þýðir þessi fækkun flugferða að erillinn verður mun minni í kringum miðnætti en sá tími sólarhringsins hefur lengi verið skilgreindur sem háannatími í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þannig má gera ráð fyrir því að farþegum í brottfararsal flugstöðvarinnar fækki úr hátt í 3 þúsund niður í 1200 til 1500 farþega seint á fimmtudagskvöldum. Og á þriðjudagskvöldum þá mun allt snúast um flug Iberia Express til Madrídar. Það er mikil breyting frá síðasta sumri þegar hægt var að fljúga til nokkura staða í Skandinavíu og á meginlandi Evrópu aðfaranótt miðvikudags eins og sjá má hér töflunni hér fyrir neðan.

En það er ekki bara í flugstöðinni sjálfri sem áhrifa af þessum miklu breytingum á flugumferð mun gæta. Þannig ætti þörfin fyrir sætaferðir til og frá flugstöðinni að minnka verulega í kringum miðnætti og eins mun þeim hótelgestum fækka sem geyma farangur á hótelunum fram á kvöld eða innrita sig í kringum miðnætti. Á móti kemur að farþegum gæti fjölgað á Keflavíkurflugvelli á morgnanna vegna aukinna umsvifa Icelandair á þeim dagsparti og aftur seinnipartinn.

Með þessari breytingu má líka segja að þeim íslenskum túristum fækki sem koma til Evrópu árla dags og verða svo að ráfa um syfjaðir þangað til að þeir fá lyklana að hótelherberginu sínu upp úr hádegi.

Flugferðirnar í kringum miðnætti, til og frá Keflavíkurflugvelli, hafa staðið undir um 15 prósent af umferðinni og það er mun meira en á gerist á evrópskum flugvöllum. Þar liggur nefnilega víðast hvar allt flug niðri frá miðnætti og fram í morgunsárið þar sem hávaðamörk við flugvelli eru oft lægri á nóttunni eða gjaldskrá flughafnarinnar hærri en yfir hábjartan daginn, það er til að mynda staðan á Óslóarflugvelli.