Óttast að takmarkanir á Akureyrarflugvelli fæli útlendinga frá

Síðustu daga hafa þotur með breska ferðamenn tvívegis ekki náð að lenda fyrir norðan. Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir viðræður við fleiri aðila um millilandaflug til Akureyrar standi og falli með því að aðflugsbúnaður sé fyrir hendi.

nordurljos markadsstofanordurlands
MYND: MARKADSSTOFA NORDURLANDS / VISIT NORTH ICELAND

Sala á sérstökum norðurljósaferðum um Norðurland fór fram út væntingum forsvarsmanna bresku ferðaskrifstofunnar Super Break og seldust á þriðja þúsund sæti í fjórtán ferðir frá nokkrum breskum borgum nú í janúar og febrúar. Nú hafa verið farnar fjórar ferðir og í tveimur þeirra hefur Íslandsreisa Bretanna hafist á Keflavíkurflugvelli en ekki á Akureyri eins og lagt var upp með. Ástæðan er sú að flugmennirnir hafa ekki treyst sér í að lenda fyrir norðan vegna veðurs.

Skortur á aðflugsbúnaði mun vera megin ástæðan fyrir þessu og skora nú forsvarsmenn Markaðsstofu Norðurlands á stjórnvöld að tryggja strax fjármagn til þess að kaupa og setja upp þess háttar búnað fyrir aðflug úr norðri á Akureyrarflugvelli. „Jafnframt að gerð verði áætlun, og hún fjármögnuð, um uppbyggingu á Akureyrarflugvelli til framtíðar svo hann geti þjónað hlutverki sínu sem varaflugvöllur og millilandaflugvöllur Norðurlands. Það felur m.a. í sér stækkun flugstöðvarinnar, stækkun flughlaðsins og að tryggja að flugvöllurinn sé sem best tækjum búinn,” segir í tilkynningu frá Markaðsstofunni.

Í svari við fyrirspurn Túrista segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar, að bent hafi verið á það í mörg ár koma þyrfti búnaðinum fyrir og það hafa verið skilningur hennar að búið væri að setja fjármagn í framkvæmdina og  verkið myndi klárast í ár. „Fjármagnið reyndist síðan ekki vera til staðar og Isavia gat ekki sett af stað vinnu við að koma búnaðinum fyrir.” Að mati Arnheiðar þá gæti þessi staða og sú staðreynd að nú hafi þotur tvívegis þurft að hætta við lendingu haft neikvæð áhrif á þær viðræður sem Markaðsstofa Norðurlands á nú í við erlendar ferðaskrifstofur og flugfélög.

Það er gert ráð fyrir að það kosti um 100 milljónir að setja notaðan aðflugsbúnað frá Keflavíkurflugvelli upp við Akureyrarflugvöll en 150 milljónir ef ný tæki verða keypt. 

Þess ber að geta að forsvarsmenn Super Break voru meðvitaðir um takmarkanirnar á Akureyrarflugvelli áður en norðurljósaferðirnar voru kynntar. Og í tilkynningu sem breska ferðaskrifstofan sendi frá sér í gær segir að flugáætlunin verði með óbreyttu sniði næstu vikur og eins ætli ferðaskrifstofan að halda sínu striki og fjölga ferðunum norður í ár og næsta vetur eins og áður hafði verið kynnt.