Primera Air hættir við flug til Boston

Flugáætlun Primera Air frá Birmingham til N-Ameríku hefur tekið töluverðum breytingum þó fyrstu ferðir séu ekki á dagskrá fyrr en í maí.

boston stor
Frá Boston. Mynd: Ferðamálaráð Boston

Síðastliðið sumar kynnti Primera Air, sem eru í eigu Andra Más Ingólfssonar, áform sín um að hefja áætlunarflug frá bresku borginni Birmingham til New York, Boston og Toronto. Fyrstu ferðirnar eru á dagskrá nú í sumarbyrjun en í gær tilkynnti félagið að ekkert verði úr fluginu til Boston. Eina verða ferðirnar til New York ekki á dagskrá alla daga, eins og lagt var upp með, heldur fjórum sinnum í viku. Jómfrúarferðinni til Toronto hefur að auki verið frestað fram í lok júní.

Í tilkynningu frá forsvarsmönnum Primera Air, sem birt er í frétt Business Traveller, segir að eftirspurnin eftir flugi milli Birmingham og Boston hafi ekki verið nægjanleg og það sé ástæðan fyrir því að flugleiðin er felld niður. Hins vegar mun sala á flugi með Primera Air milli Parísar og Boston ganga vel samkvæmt því sem segir í tilkynningunni.

Þó Primera Air sé í eigu Íslendings þá er fyrirtækið skráð í Danmörku og Lettlandi en býður þó  upp á beint flug frá Keflavíkurflugvelli til nokkurra áfangastaða á Spáni og eins til Trieste á Ítalíu.