Spánn gæti orðið næstvinsælasta ferðamannalandið í stað Bandaríkjanna

Ekkert land laðar til sín jafn marga ferðamenn og Frakkland og á því verður ólíklega breyting. Hins vegar hefur hylli Bandaríkjanna minnkað og kenna margir forseta landsins um þróunina.

spann strond
Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Nú sitja forsvarsmenn ferðamála víða um heim og reikna út hversu margir túristarnir voru á nýliðnu ári og er þá oftast miðað við þann fjölda sem dvaldi í viðkomandi landi í að lágmarki eina nótt. Hér heima gaf Ferðamálastofa það út í síðustu viku að 2,2 milljónir erlendra flugfarþega hefðu farið í gegnum Keflavíkurflugvöll en sú talning hefur vanalega verið lykiltalann þegar fjöldi ferðamanna er gefinn út. Ferðamönnunum fjölgaði því um nærri fjórðung hér á landi og það er útlit fyrir að vöxturinn hafi líka verið töluverður á Spáni. Og kannski nægjanlega mikill til að koma landinu upp fyrir Bandaríkin á listanum yfir vinsælustu ferðamannalönd í heimi samkvæmt frétt Independent.

Ástæðan fyrir sætaskiptunum skrifast þó ekki aðeins á vinsældir Spánar heldur líka þá staðreynd að dregið hefur úr komum erlendra ferðamanna til Bandaríkjanna allt frá því að Donald J. Trump tók við lyklavöldunum í Hvíta húsinu. Hvorki Spánn né nokkurt annað land nær hins vegar að velta Frakklandi úr sessi sem vinsælasta ferðamannaland heims.

Hinn góði gangur í spænskri ferðaþjónustu er líka athyglisverður í ljósi þess ástands sem verið hefur í Katalóníu allt frá því að mannskæð hryðjuverk voru framin á Römblunni í Barcelona í ágúst. Stuttu eftir þau hófust svo regluleg mótmæli á götum borgarinnar í tengslum við sjálfstæðisbaráttu héraðsins. En Katalónía er sá hluti Spánar sem lagt hefur mest af mörkum til ferðaþjónustu landsins.