Svona var sumaráætlun Icelandair fyrir 30 árum síðan

Sumarið 1988 flugu þotur Icelandair að jafnaði 14 sinnum á dag til útlanda. Þremur áratugum síðar eru flugferðirnar nærri fjórum sinnum fleiri og fjölgun áfangastaða er margföld.

Skjákot (Tímarit.is) af auglýsingu Flugleiða í Alþýðublaðinu 21. maí 1988.

Farþegar Icelandair gátu valið á milli áætlunarferða til 20 áfangastaða í Evrópu og N-Ameríku í júlí 1988 og í heildina voru ferðirnar 96 í viku. Dreifðust þær á 20 áfangastaði en vægi þeirra var mjög mismunandi því til að mynda var þriðju hverri ferð heitið til annað hvort Lúxemborg eða Kaupmannahafnar. Danska höfuðborgin vegur enn þann dag í dag þungt í áætlun Icelandair og mun félagið bjóða upp á 33 ferðir í viku til Kaupmannahafnar í sumar. Aftur á móti hefur Icelandair ekki flogið til Findel flugvallar í Lúxemborg síðustu 19 ár.

Eins og sjá má á þessari þrjátíu ára auglýsingu hér fyrir neðan þá voru áfangastaðir Icelandair í Bandaríkjunum aðeins fjórir sumarið 1988 en þeir verða 17 að þessu sinni. Reyndar verður gert hlé á flugi til Orlando og Tampa Bay yfir hásumarið. Evrópsku áfangastöðunum hefur líka fjölgað umtalsvert síðustu 30 ára en einhverjir hafa dottið út. Auk Lúxemburg eru þotur Icelandair t.d. hættar að fljúga til Salzburg og Kýpur. Systurfélagið Air Iceland Connect sér svo um áætlunarferðirnar til Grænlands og Færeyja og að auki til Aberdeen í Skotlandi og Belfast á N-Írlandi.

Samkvæmt talningu Túrista þá munu þotur Icelandair fljúga 376 ferðir í viku hverri yfir háannatímann í sumar eða nærri fjórum sinnum fleiri ferðir en sumarið 1988. Og áfangastaðirnir verða 46 talsins. Við þann fjölda bætist svo sólarlandaflug fyrir ferðaskrifstofurnar Vita og Úrval-Útsýn. En þess háttar verkefnum hefur Icelandair ekki sinnt um árabil yfir hásumarið enda hefur flugflotinn verið fullnýttur í áætlunarflug. Nú í lok vetrar tekur félagið hins vegar við þremur nýjum Boeing MAX þotum og svigrúmið til að sinna öðrum verkefnum hefur því aukist.

Skjákot (Tímarit.is) af auglýsingu Flugleiða í Alþýðublaðinu 21. maí 1988.