Verður fyrsta Evrópuflugið frá Kansas City

Þetta er rétti tímapunkturinn til að hefja samstarf um flug milli Kansas City og Keflavíkurflugvallar að mati talsmanns bandarísku flughafnarinnar.

Kansas í haustlitunum. Mynd: Icelandair

Þær farþegaþotur sem taka á loft frá flugvellinum við Kansas City taka annað hvort stefnuna á aðrar bandaríska borgir eða fljúga til Kanada eða Mexíkó. Áætlunarflugið frá þessari 39. fjölförnustu flughöfn Bandaríkjanna takmarkast nefnilega við Norður-Ameríku en á því verður breyting þann 25. maí næstkomandi þegar Icelandair fer sína fyrstu ferð til borgarinnar en félagið kynnti áform sín um flug til Kansas City fyrr í dag. „Við höfum aldrei áður haft á boðstólum beint flug yfir Atlantshafið eða til Evrópu,“ segir Joe McBride, yfirmaður markaðs- og samskiptasviðs Kansas City flugvallar, í svari til Túrista. Og aðspurður um hvort koma Icelandair til bandarísku borgarinnar eigi sér langan aðdraganda segir McBride að forsvarsmenn flugvallarins og Icelandair hafi átt í samskiptum um þónokkurn tíma en núna hafi verið rétti tíminn til að hefja samstarf um flugleiðina milli Kansas City og Keflavíkurflugvallar.

Í tilkynningunni sem Icelandair sendi frá sér í dag er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair, að flugvöllurinn í Kansas City sé sá stærsti í Bandaríkjunum þar sem ekkert beint flug til Evrópu er í boði. „Með nágrannaborgum er íbúafjöldi svæðisins um 5 milljónir og Icelandair er því að opna stóran spennandi markað fyrir íslenska ferðaþjónustu og styrkja tengiflug félagsins til og frá Evrópu.“ Kansas City er 21. áfangastaður Icelandair í Norður-Ameríku sem og verður flogið þangað þrisvar í viku yfir sumarið og fram til septemberloka.

Kansas City er staðsett í miðjum Bandaríkjunum á mörkum fylkjanna Kansas og Missouri á sléttunum miklu. Saga borgarinnar tengist gjarnan villta vestrinu og amerískri menningu, til að mynda blómstraði jazzinn þar í borg á fjórða áratugnum og þar fór fremstur Count Basie, einn af risum tónlistargreinarinnar. Er því stundum haldið fram að þó jazzinn hafi fæðst í New Orleans þá hafi hann alist upp í Kansas City. Íslenskir jazzgeggjarar sem ætla að gera sér ferð á þessar slóðir mega gera ráð fyrir að borga að minnsta kosti 64.255 kr. fyrir farið með Icelandair, báðar leiðir, samkvæmt lauslegri athugun Túrista.