WOW hefur náð 70% af stærð Icelandair

Í farþegum talið þá minnkar bilið á milli flugfélaganna hratt og sú þróun ætti að halda áfram í ár enda mun flugfloti WOW air stækka umtalsvert á næstu mánuðum.

wow radir
Mynd: WOW air

Rúmlega 2,8 milljónir farþega nýttu sér áætlunarferðir WOW air á síðasta ári og fjölgaði þeim um 69 prósent frá árinu á undan. Framboð á flugsætum jókst hins vegar aðeins meira á milli ára eða um 80 prósent. Í tilkynningu frá WOW air er haft eftir Skúla Mogensen, stofnanda og forstjóra, að árið 2017 hafi einkennst af gríðarlegum vexti og fjárfestingum á öllum sviðum. Hann gerir ráð fyrir að farþegunum fjölgi um 900 þúsund í ár en félagið tekur í notkun sjö glænýjar flugvélar í ár. Þar af eru fjórar Airbus A330-300neo breiðþotur og verður WOW annað flugfélagið í heiminum til að bæta þess háttar þotum við flugflota sinn. Líkt og í hittifyrra þá var sætanýtingin hjá WOW air að jafnaði 88% á síðasta ári.

Vöxtur WOW air hefur verið mjög hraður frá því að félagið hóf að fljúga vestur um haf í maí árið 2015. Árin tvö þar á undan var farþegahópur félagsins rétt um fimmtungur af þeim fjölda sem Icelandair flutti en miðað við lokauppgjör félaganna fyrir árið 2017 þá hefur WOW air nú náð 70 prósent af stærð Icelandair. Það er ekki síður merkilegt í ljósi þess að farþegafjöldinn hjá Icelandair hefur tvöfaldast síðustu fimm ár, úr 2 milljónum í fjórar.