WOW tekur upp fjórflokkakerfi

Valkostum viðskiptavina íslenska lággjaldaflugfélagsins fjölgar brátt um einn.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: WOW air/Friðrik Örn Hjaltested

Ódýrustu farmiðunum hjá WOW air fylgir ekki handfarangur, innrituð taska né val á sætum. Farþegi sem vill hafa kost á öllu þessu þrennu er því betur setur með því að bóka plúsfargjald flugfélagsins í stað þess að bæta þessum valkostum við ódýrasta fargjaldið. Hins vegar borgar sig ekki að kaupa plúsmiðann ef aðeins á að ferðast með handfarangur. „WOW-Biz“ er svo fargjaldið fyrir þá sem kjósa einnig forfallatryggingu, forgang í vopnaleit, veitingar og breiðustu sætin.

Við þessa þrjá valkosti bætist svo bráðlega sá fjórði sem kallast „Comfy“ en í honum er innifalinn flugmiði, lítið veski, innrituð taska, handfarangur, forfallavernd og sæti með XL eða XXL sætabili. „Á síðasta ári kynntum við til leiks tvær nýjar þjónustuleiðir; WOW plus og WOW biz og fengu þær frábærar viðtökur frá farþegum okkar. Með auknum farþegafjölda og ólíkum viðskiptavinum með ólíkar þarfir sjáum við tækifæri að þróa þjónustu okkar enn frekar og bæta við fjórða valkostinum fyrir farþega okkar. Á þann hátt geta farþegar valið þá leið sem hentar þeim best hverju sinni,“ segir Engilbert Hafsteinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs, í tilkynningu.