Samfélagsmiðlar

Aukningin miklu meiri hjá WOW en erlendu flugfélögunum

Þó nokkur af stærstu flugfélögum Evrópu hafa stóraukið Íslandsflug sitt í janúar þá hefur aukningin ekki skilað viðlíka fjölgun farþega eins og raunin var hjá WOW air.

Farþegum WOW fjölgaði um 46 þúsund í janúar en um tæplega 4 þúsund hjá Icelandair.

Þau tíðindi urðu í nýliðnum mánuði að WOW air flutti fleiri farþega en Icelandair og er þetta í fyrsta skipti sem það gerist. Icelandair bauð engu að síður upp á þriðjungi fleiri áætlunarferðir í janúar, samkvæmt talningu Túrista, en þar sem þotur WOW taka að jafnaði fleiri farþega og voru þéttsetnari þá varð niðurstaðan sú að 217 þúsund flugu með WOW en um 209 þúsund með Icelandair. Í fréttatilkynningu WOW air kemur einnig fram að sætanýtingin hafi verið 88% en hún var 72,3% hjá Icelandair samkvæmt kauphallartilkynningu. Þarna er bilið umtalsvert en alla jafna er nýtingin hærri hjá lággjaldaflugfélögum en þeim hefðbundnu og til samanburðar þá var hlutfall seldra sæta 82% hjá Norwegian en 64% hjá SAS í nýliðnum mánuði.

Hinn mikli vöxtur WOW air í janúar er ekki aðeins athyglisverður í ljósi þess að félagið flaug fram úr Icelandair heldur líka vegna þess að farþegum fjölgaði nokkru minna á Keflavíkurflugvelli en spá Isavia gerði ráð fyrir. Samtals fóru 569 þúsund um flugstöðina sem er aukning um 15% en spáin gerði ráð fyrir 22% vexti. Farþegahópurinn stækkaði engu að síður um 75 þúsund og í ljósi þess að WOW air flutti 46 þúsund fleiri í nýliðnum mánuði þá má segja að 6 af hverjum 10 viðbótarfarþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, í síðasta mánuði, hafi verið þar á vegum íslenska lággjaldaflugfélagsins. Vel innan við einn af hverjum tíu sem bættist við hefur verið á leið í eða úr flugi með Icelandair og hinir með erlendu flugfélögunum eða um þriðjungur af viðbótinni.

Að þau erlendu hafi ekki bætt meiru við er athyglisvert í ljósi þess að mörg þeirra juku töluvert við Íslandsflug sitt í janúar. Samkvæmt talningu Túrista fjölgaði brottförum easyJet, Wizz Air, British Airways, Lufthansa og Finnair samtals um 126 í janúar á meðan aukningin hjá WOW air nam 107 brottförum. Farþegaaukningin hjá WOW hefur hins vegar verið miklu meiri en hjá erlendu flugfélögunum sem er þá vísbending um að sætanýtingin í Íslandsflugi stærstu flugfélaga Evrópu hafi verið fremur lág. Aftur skal ítrekað að í flugflota WOW air eru breiðþotur en svo stórar flugvélar nota erlendu flugfélögin ekki í ferðir sínar hingað. Mbl.is greindi hins vegar frá því um síðustu helgi að tvær af þremur breiðþotum WOW eru ekki tiltækar þessa dagana. Það gæti haft áhrif á farþegafjöldann hjá félaginu í febrúar.

Alla jafna er janúar erfiður mánuður í flugrekstri enda fáir á ferðinni og sérstaklega eftir að jóla- og áramótaumferðinni lýkur. Til að fá fleiri um borð grípa því flugfélögin því oft til þess að lækka fargjöldin jafnvel þó þau hafi verið lág fyrir enda samkeppnin í fluginu mikil þessi misseri. Meðalfargjaldið gæti því hafa lækkað hratt undanfarið og þá fara flugfélögin á mis við miklar tekjur þó vissulega ýti hagstæð fargjöld líka undir ferðagleði fólks. Á sama tíma er spáð áframhaldandi hækkun á olíu en líkt og Túristi fjallaði nýverið um þá vega kaup á eldsneyti þungt í rekstri flugfélaga.

 

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …