Bílaleigubílarnir ekki lengur langdýrastir við Leifsstöð

Verðskrár íslenskra bílaleiga eru ekki lengur í sérflokki í Evrópu þó þær séu ennþá hæstar. Fyrir íslenska ferðamenn er orðið mun ódýrara að leigja bíl út í heimi.

island vegur ferdinand stohr
Mynd: Ferdinand Stohr

Ferðamaður sem var á leið til Íslands sumarið 2015 og bókaði sér bílaleigubíl í febrúar það ár þurfti að borga að lágmarki 123 þúsund fyrir bíl af minnstu gerð í tvær vikur. Sá sem er í sömu sporum í dag greiðir hins vegar rétt um 76 þúsund krónur fyrir sambærilegan bíl. Verðlækkunin nemur um 38% en hún er þó minni í erlendum gjaldeyri þar sem krónan hefur styrkst verulega síðustu þrjú ár. Þannig hefur verðlagið á íslensku bílaleigunum lækkað um 24% í evrum en 17% í dollurum ef miðað er við gengið í febrúar 2015 og aftur í dag. Þrátt fyrir verðlækkunina er leiguverðið á bílaleigunum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar hærra en annars staðar í Evrópu samkvæmt samanburði Túrista sem nær til 12 flugvalla í álfunni.

Þessi mikla verðlækkun hér á landi á sér nokkurn aðdraganda því könnun Túrista, í lok síðasta vetrar, leiddi í ljós að sumarverðskrá bílaleiganna við Keflavíkurflugvöll hafði lækkað umtalsvert frá árunum 2015 og 2016. Sú þróun hefur haldið áfram í ár.

Vegna styrkingar krónunnar er líka orðið miklu hagstæðara fyrir íslenska ferðamenn að leigja bíl út í heimi eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Þannig hefur meðalverðið lækkað um helming á bílaleigunum í Alicante á Spáni og álíka mikið við Gatwick flugvöll í London. Það hefur hins vegar hækkað umtalsvert við Arlanda í Stokkhólmi en þar og í Ósló eru bílaleigubílarnir dýrastir þegar leiguverðið við Keflavíkurflugvöll er frátalið.

Í verðkönnunum Túrista er fundið við leiguverð á ódýrasta bílaleigubílnum við hverja flugstöð fyrir sig og miðað er við tveggja vikna leigutíma í júní, júlí og ágúst og reiknað út meðalverð á dag. Notast er við leitarvél Rentalcars.com sem er ein umsvifamesta bókunarsíða heims á þessu sviði og býður því oft lægra verð en almennt gerist. Þannig kostar ódýrasti bílaleigubíllinn á Keflavíkurflugvelli seinni hlutann í júlí rúmlega 86 þúsund skv. Rentalcars en ef bókað er beint hjá Hertz er verðið að lágmarki 139.200 og 154.599 hjá Avis. Þess má geta að verðskrár þessara tveggja bílaleigufyrirtækja hafa líka lækkað verulega frá því í febrúar 2015. Þá kostaði ódýrasti bíllinn hjá Hertz 198.800 kr. og 214.300 hjá Avis. Í öllum tilvikum er ótakmarkaður akstur og kaskótrygging innifalin í verðinu.