Bjarnheiður býður sig fram til formanns SAF

Forsvarsfólk ferðaþjónustunnar velur sér nýjan formann í næsta mánuði og nú eru tveir frambjóðendur komnir fram.

Bjarnheiður Hallsdóttir Myndir: Iceland.is og aðsend

Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Katla DMI, ætlar að sækjast eftir formannsembættinu í Samtökum ferðaþjónustunnar. En Grímur Sæmundsen sem verið hefur forsvari fyrir samtökin síðustu fjögur ár ætlar að láta staðar numið á aðalfundi þeirra sem fer fram eftir rúmar þrjár vikur.

Bjarnheiður segir ástæðuna fyrir framboðinu sínu vera fyrst og fremst þá að hún hafi rekið ferðaþjónustufyrirtæki í rúm 20 ár og að ferðaþjónusta hafi verið hennar aðalstarf og jafnframt hennar helsta áhugamál. „Ég hef fengið tækifæri til að koma að greininni frá mörgum hliðum, meðal annars við stefnumótunarvinnu fyrir landshluta og sveitarfélög, starfa í ýmsum ráðum og nefndum auk kennslu, bæði við Ferðamálaskólann í Kópavogi og við Háskóla Íslands. Ég ber hag þessarar atvinnugreinar mjög fyrir brjósti og langar til að leggja mitt af mörkum á afgerandi hátt á þessum vettvangi atvinnurekenda. Til þess að tryggja veg hennar og vanda í framtíðinni,” segir Bjarnheiður.

Að mati Bjarnheiðar stendur ferðaþjónustan frammi fyrir mörgum stórum úrlausnarefnum um þessar mundir og því mikilvægt að framsýni og  fagmennska séu viðhafðar bæði hjá fyrirtækjum og ríkisvaldinu við allar ákvarðanir.

Aðpurð um stöðu SAF í dag og framtíðarýn hennar fyrir samtökin þá segir Bjarnheiður að forysta SAF hafi undanfarin ár gert margt mjög gott og eftirtektarverkt. „Ég myndi þó vilja efla innra starf samtakanna enn meira, meðal annars með því að gefa fagnefndum miklu meira vægi og auka samstarfið á milli nefndanna og stjórnarinnar. Einnig myndi ég vilja að SAF tæki sér meira pláss og taki oftar frumkvæði í umræðunni um ferðaþjónustu á landinu sem því miður á það til að vera neikvæðum nótum. Það er lífsnauðsynlegt fyrir ferðaþjónustuna að hún sé í sátt við íbúa og þeir séu sér meðvitaðir um hagrænt gildi hennar. SAF þarf að standa vörð um að rekstarumhverfi greinarinnar sé gott og samkeppnishæft  og ætti að efla samstarf og samræðu við stjórnvöld enn frekar en nú er gert. Bæði hvað varðar rekstarskilyrði fyrirtækjanna sem og mörg önnur mál eins og t.d. skipulagsmál og umhverfismál.”

Þórir Garðarsson, núverandi varaformaður, hefur áður tilkynnt að hann óski einnig eftir formannssætinu. Framboðsfrestur rennur út tveimur vikum fyrir aðalfund SAF sem fer fram þann 21. mars.