Booking.com sækir inn á markað fyrir heimagistingu

Umsvifamesta hótelbókunarfyrirtæki í heimi ætlar sér stærri sneið af hinum ört stækkandi markaði fyrir íbúðagistingu. Fyrirkomulagið hjá fyrirtækinu er á ýmsan hátt annað en hjá Airbnb, til að mynda hvað varðar birtingu leyfisnúmers söluaðila.

Aðsend mynd

Hin mikla aukning sem orðið hefur í skammtímaleigu íbúðahúsnæðis til ferðamanna hér á landi er jafnan tengd bandarísku gistimiðluninni Airbnb. Enda hefur fyrirtækið þúsundir íslenskra gistikosta á sínum snærum. Hótelherbergin sem bókunarfyrirtækið Booking.com miðlar hér á landi eru líka mörg en nú ætlar það fyrirtæki sér einnig aukin hlut í íbúðagistingunni. „Það er vilji okkar að fá inn fleiri íbúðar á síðuna og breyta þeirri ímynd að Airbnb sé fyrir íbúðir og Booking.com aðra gistingu,” segir Egill Ólafsson viðskiptastjóri íbúða hjá Booking.com. Átta manns starfa á skrifstofu fyrirtækisins hér á landi.

Að sögn Egils er Booking.com stærsti söluaðili gistinga í heiminum og í því felast tækifæri fyrir íbúðaeigendur sem vilja leiga út íbúðir og til að mynda er þjónustuver fyrirtækisins opið allan sólarhringinn. Aðspurður um hversu háa þóknun Booking.com tekur fyrir sína þjónustu segir Egill að gististaðir greiði 15% þóknun en gesturinn sjálfur ekki neitt. „Samanborið við Airbnb þá borgar gististaðurinn 3-5% þóknun og gesturinn sjálfur 10-12%. Verðið sem gististaður setur inná Booking.com er því alltaf endanlegt verð en er ekki breytilegt og háð þjónustugjaldi eins og hjá Airbnb.”

Í byrjun síðasta árs tóku gildi nýjar reglur um heimagistingu hér á landi og samkvæmt þeim eiga íbúðaeigendur að láta leyfisnúmer sín koma fram í auglýsingum á húsnæðinu. Þessi númer eru þrátt fyrir það sjaldséð inn á vef Airbnb samkvæmt athugunum Túrista síðustu misseri. Egill segir hins vegar að mikið sé lagt upp úr því hjá Booking.com að reglum á hverjum stað sé fylgt og í skráningarferli fyrir íbúðir er því beðið um leyfisnúmer viðkomandi söluaðila en það er sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem veitir leyfin.

Áhugasamir íbúðaeigendur geta fengið nánari upplýsingar á heimasíðu Booking.com.