Bretar nýttu sér ekki aukið Íslandsflug

Stærstu flugfélög Bretlands bættu verulega í Íslandsflugið í janúar en engu að síður stóð fjöldi breskra ferðamanna í stað.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Yfir vetrarmánuðina eru Bretar fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi og þá ná flugsamgöngur milli Íslands og Bretlands hámarki. Og það virðist lítið lát á viðbótinni því í janúar fjölgaði flugferðum easyJet hingað frá Bretlandi um 38 eða um 24% og viðbótin hjá British Airways nam 22 ferðum samkvæmt talningu Túrista en Íslandsflug þess síðarnefnda hefur nærri tvöfaldast í vetur. Gera má ráð fyrir að í þessum sextíu viðbótarferðum bresku flugfélaganna hafi verið hátt í 10 þúsund sæti.

Það dró hins vega aðeins úr Bretlandsflugi íslensku flugfélaganna í janúar en samtals fjölgaði þó flugferðunum milli Íslands og Bretlandseyja um tíund. Þrátt fyrir það varð ekki aukningin í komum breskra ferðamanna og reyndar fækkaði þeim um eitt prósent samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Þessi stöðnun er meðal annars athyglisverð vegna þess að bróðurpartur þeirra sem nýtir sér Íslandsflug bresku flugfélaganna eru erlendir ferðamenn á leið til landsins á meðan hátt hlutfall breskra farþega Icelandair og WOW air er fólk sem er á leið yfir hafið til Norður-Ameríku.

Það eru þó ekki eingöngu Bretar sem nýta sér áætlunarflug easyJet og British Airways til Íslands því líkt kom fram í viðtali Túrista, við sölustjóra BA, þá hafa Kínverjar verið stór farþegahópur í Íslandsflugi félagsins frá Heathrow í London. Til Íslands komu hins vegar tíund færri kínverskir ferðamenn í janúar en á sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Samkvæmt svari frá blaðafulltrúa British Airways þá veitir flugfélagið ekki upplýsingar um sætanýtingu á einstaka flugleiðum. Þess má svo geta að breskum ferðamönnum fækkaði hér á landi um 4,5% á síðasta ársfjórðungi 2017.