Draga sig út af breska markaðnum og hætta Keflavíkurflugi frá Akureyri

Stjórnendur Air Iceland Connect bregðast við minni eftirspurn með breytingum á leiðakerfi félagsins.

flugvel innanlands isavia
Air Iceland Connect hættir flugi frá Keflavíkurflugvelli í maí. Mynd: Isavia

Fyrir tveimur árum síðan fór Air Iceland Connect, þá Flugfélag Íslands, jómfrúarferð sína til Aberdeen í Skotlandi. Markmiðið var ekki aðeins að efla flugsamgöngur milli Íslands og Aberdeen heldur líka að auka valkosti þeirra sem voru á leið milli Norður-Ameríku og skosku olíuborgarinnar og var nýja flugleiðin því kynnt í samstarfi við systurfélagið Icelandair. George Best flugvöllur í Belfast bættist svo við leiðakerfi Air Iceland Connect í fyrra en frá og með miðjum maí verða flugleiðirnar til Belfast og Aberdeen lagðar niður. Í samtali við Túrista segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, að breski markaðurinn sé erfiður því eftirspurn eftir Íslandsflugi þaðan hafi verið að minnka á sama tíma og framboðið hafi aukist. Árni bendir jafnframt á að Brexit hafi haft neikvæð áhrif á þróun mála en niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni lág fyrir stuttu eftir að flugfélagið hóf flug til Bretlands. Air Iceland Connect er ekki fyrst til að leggja niður breska flugleið frá Keflavíkurflugvelli síðan Brexit kom upp því WOW air hætti flugi til Bristol í fyrra og Icelandair ætlar ekki að halda áætlunarflugi sínu til Birmingham áfram.

Á sama tíma og Air Iceland Connect leggur niður Bretlandsflug sitt frá Keflavíkurflugvelli þá hættir félagið jafnframt að bjóða upp á beint flug þaðan til Akureyrar í tengslum við millilandaflug. Þar með lokar eina innanlandsflugleiðin frá Keflvíkurflugvelli en líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá er leit að alþjóðaflugvelli eins og Keflavíkurflugvelli sem hefur ekkert innanlandsflug á boðstólum. Árni segir ástæðuna fyrir endalokum Akureyrarflugsins, frá Keflavík, vera of litla eftirspurn og lága sætanýtingu enda hafi ekki tekist að ná nógu vel til erlendra ferðamanna. Heimamenn hafi því verið í meirihluta í fluginu en þeir séu einfaldlega ekki nógu margir til að halda úti jafn tíðum ferðum og nauðsynlegar eru í svona áætlun.

Air Iceland Connect hefur einnig gert breytingar á Grænlandsflugi sínum í kjölfar þess að félagið hættir að fljúga frá Keflavíkurflugvelli. Því verður ekki flogið til Kangerlussuaq í sumar og ferðirnar til Narsarsuaq færast til Reykjavíkurflugvallar. Með þessum tilfærslum segir Árni að Air Iceland Connect einbeiti sér að innanlandsflugi og ferðum til Grænlands en tekjurnar af flugleiðunum sem nú detta út eru um 7 til 8 prósent af veltu fyrirtækisins í dag.

Aðspurður um hvort félagið muni í kjölfarið fækka í flugflota sínum svarar Árni því að í dag sé Air Iceland Connect með fimm vélar í notkun og fái brátt afhenta þá sjöttu. Hann býst við að félagið selji eða reyni að leigja eina vél en hvort það verður Bombardier Q400 eða Q200 komi í ljós síðar.