Ekki tímabært að útiloka innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli

Ráðherra ferðamála segir flugleiðina milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar njóta styrkja og hún telur ekki fullreynt að hægt sé að halda þjónustunni úti.

„Ég sé í sjálfu sér ekki hvað hið opinbera getur lagt af mörkum í þeim efnum umfram það sem við höfum þegar gert en ég er sannarlega tilbúin til að eiga samtal við hlutaðeigandi um það," segir Þórdís Kolbrún Reykafjörð Gylfadóttir. Myndir: Isavia og Stjórnarráðið

„Það eru vonbrigði að þessi leið skuli falla niður. Við höfum lagt töluvert af mörkum til að gera þetta mögulegt. Við breyttum reglum flugþróunarsjóðs til að þær næðu til þessa flugs og sjóðurinn hefur því styrkt það um níu til tíu milljónir króna,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, aðspurð um ákvörðun stjórnenda Air Iceland Connect að leggja niður flug milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar nú í vor. En þessari flugleið hefur verið haldið úti yfir hásumarið um árabil en reglulegar ferðir yfir veturinn hófust fyrst í febrúar í fyrra.

Ráðherrann bendir einnig á að 80 milljónum hafi verið varið í markaðssetningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum. „Mögulega á það enn eftir að skila árangri og við sjáum að flug SuperBreak til Akureyrar hefur verið vel nýtt og mikil eftirspurn. Tengiflugið í gegnum Keflavík hefur hins vegar aðallega verið nýtt af Íslendingum samkvæmt mínum upplýsingum. Mér finnst ekki tímabært að útiloka að þetta geti gengið. Ég sé í sjálfu sér ekki hvað hið opinbera getur lagt af mörkum í þeim efnum umfram það sem við höfum þegar gert en ég er sannarlega tilbúin til að eiga samtal við hlutaðeigandi um það,“ segir Þórdís Kolbrún.

Líkt og Túristi greindi frá í gær þá eru forsvarsmenn annarra íslenskra flugfélaga ekki að íhuga að taka taka við keflinu af Air Iceland Connect og bjóða upp á innanlandsferðir frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Frá og með sumarbyrjun stefnir því í að Keflavíkurflugvöllur verði aftur án innanlandsflug en þess háttar þjónusta er hins vegar veigamikill hluti af starfsemi stærstu flughafnanna í löndunum í kringum okkur.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir að það sé hennar trú að það sé næg eftirspurn eftir þessu tengiflugi frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar og viðræður séu hafnar við aðra aðila um að starfrækja þessa flugleið. „Ég get ekki tilnefnt ákveðna aðila, það verður að koma í ljós ef vel gengur að fá menn í verkefnið.“

Með brotthvarfi Keflavíkurflugsins gefst Akureyringum ekki lengur sá kostur að fljúga úr heimabyggð að morgni og vera komnir á meginland Evrópu um hádegisbil. En eins og fram hefur komið voru það aðallega heimamenn fyrir norðan sem nýttu sér samgöngubótina sem flug Air Iceland Connect hefur verið.

Samkvæmt heimildum Túrista þá hefur það meðal annars staðið tengifluginu milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar fyrir þrifum að forsvarsmenn lággjaldaflugfélaganna  gerðu farþegum sínum ekki að innrita farangur alla leið ef þeir hófu ferðalagið fyrir norðan eða ætluðu að halda þangað beint í framhaldi af komunni til Keflavíkurflugvallar. Eins mun fyrirkomulagið í Leifsstöð í tengslum við flugið hafa valdið ruglingi hjá bæði farþegum og jafnvel tollvörðum sem vildu ekki hleypa farangri til tollafgreiðslu á Akureyrarflugvelli. Ýmsir aðrir byrjunarörðugleikar settu einnig strik í reikninginn.