Erlendu flugfélögin með fjórðu hverju brottför

Icelandair og WOW air eru með stærstan hluta af alþjóðafluginu héðan en hin flugfélögin sækja á.

easyjet 2017
Af erlendum flugfélögunum á Keflavíkurflugvelli þá er easyJet umsvifamest. Mynd: easyJet

Að jafnaði var boðið upp á 58 áætlunarferðir á degi hverjum frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar í nýliðnum janúar sem er aukning um átta brottfarir á dag. Sem fyrr eru það Icelandair og WOW air sem standa undir bróðurpartinum eða 73% af öllu framboðinu og vægi Akureyrarflugs Air Iceland Connect frá Keflavíkurflugvelli er um eitt prósent.
Erlendu flugfélögin eru því með rétt rúman fjórðung ferða og hefur hlutfallið aukist aðeins frá því janúar í fyrra samkvæmt daglegum talningum Túrista á flugumferð um Keflavíkurflugvöll.

Eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan þá hefur hlutdeild flugfélaganna, í brottförum talið, breyst töluvert síðustu ár. Þannig stóð Icelandair undir 72% af allri umferðinni í janúar 2014 en núna var vægi félagsins um 30 prósentustigum lægra.