Fara fram á að gjaldtöku verði frestað vegna óvissu

Frá og með morgundeginum hækka álögur á hópferðabíla við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Samtök ferðaþjónustunnar fara fram á að aðgerðinni verði slegið á frest.

airportexpress
Mynd: Gray Line

Hingað til hefur ekki verið rukkað fyrir afnot af sérstöku rútustæði við Leifsstöð en gjaldtaka var hins vegar boðuð í tengslum við útboð Isavia á aðstöðu fyrir sætaferðir frá flugstöðinni síðastliðið sumar. Í desember var gjaldskráin birt og af viðbrögðum að dæma þá var hún mun hærri en forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækja höfðu búist við. Þannig mun það kosta 19.900 krónur að keyra hefðbunda rútu inn á stæðið en minna fyrir smærri hópferðabíla. Samkeppniseftirlitið er nú með þessa nýju gjaldheimtu til skoðunar eftir að stjórnendur Gray Line kærðu hana til stofnunarinnar.

Á morgun, 1. mars, hefst gjaldtaka við rútustæðið en í fyrradag tilkynnti Isavia að veittur yrði sex mánaða aðlögurnartími  og að bílastæðagjöldin yrðu lægri fram til sumarloka. Það virðist þó ekki hafa dugað til að lægja öldurnar því samkvæmt tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar þá fór fram félagafundur innan samtakanna í dag þar sem til umræðu var boðuð gjaldtaka og staða mála sér í lagi í ljósi þess að mál þetta er nú í formlegu ferli hjá Samkeppniseftirlitinu. „Þar kom m.a. fram að í ljósi óvissu um lögmæti umræddra gjalda telji fyrirtæki sér ekki unnt að taka ákvörðun að svo stöddu um að skrá sig hjá Isavia ohf., og þar með samþykkja boðaða gjaldskrá, en ákvörðun um slíkt liggur alfarið hjá fyrirtækjum, “ segir í tilkynningunni frá SAF.

Það segir jafnframt að SAF telji mikilvægt að allri óvissu um lögmæti umræddra gjalda, þ.m.t. álitamálum um gagnsæi og forsendur gjaldanna, sé eytt áður en hún kemur til framkvæmda. „Telja SAF því ábyrgt að Samkeppniseftirlitinu sé gefið færi á því að ljúka rannsókn sinni á málinu en nú þegar á sér m.a. stað gagnaöflun eftirlitsins þar sem leitað hefur verið eftir ítarlegum upplýsingum frá hagsmunaaðilum til viðbótar við upplýsingar frá Isavia ohf. Í ljósi óvissu um gjöldin og þeirra álitamála sem uppi eru þá skora samtökin á Isavia ohf. að fresta gildisstöku gjaldanna að lágmarki fram til þess tíma sem niðurstaða eftirlitsins liggur fyrir.“

Þess má geta að Isavia er eitt af aðildarfélögum Samtaka ferðaþjónustunnar.