Ferðafólki frá Póllandi fjölgar mest

Pólverjar hafa staðið undir verulegum hluta af þeirri aukningu sem orðið hefur í fjölda ferðamanna hér á landi í vetur. Íslendingar nýta sér líka hinar tíðu flugferðir héðan til Póllands.

Mynd: Wizz Air

Flugsamgöngur milli Íslands og Póllands hefa aukist verulega síðustu misseri með stórauknu Íslandflugi Wizz Air en flugfélagið býður nú upp á beint flug hingað frá fimm pólskum borgum og að jafnaði eru 2.700 sæti í þotum félagsins sem fljúga hingað í viku hverri frá Póllandi. Þetta mikla framboð hefur líka ýtt undir ferðamannastrauminn hingað frá Póllandi og þegar litið er aftur til síðustu þrjá mánaða kemur í ljós að pólskum ferðamönnum hefur fjölgað um nærri 7.900 á meðan viðbótin frá Bandaríkjunum, fjölmennustu þjóðinni í hópi ferðamanna hér á landi, nemur um 7.500 farþegum samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Í heildina hefur erlendu flugfarþegunum í innritunarsal Leifsstöðvar fjölgað um 35 þúsund frá byrjun nóvember og fram til loka janúar. Pólverjar standa því undir um nærri fjórðungi af þeirri viðbót.

Það má hins vegar slá því föstu að einhver hluti af þeim Pólverjum sem taldir eru sem ferðamenn í Leifsstöð eru í raun búsettir hér á landi í lengri eða skemmri tíma. Því eins og Túristi hefur fjallað um þá eru allir þeir sem fara í gegnum vopnaleitina í flugstöðinni taldir sem ferðamenn. Og samkvæmt athugun sem Isavia gerði í nóvemver sl. þá voru um 5 af hverjum 100 útlendingum, sem taldir eru sem erlendir ferðamenn, í raun búsettir hér á landi. Ef hlutfallið hefur verið sambærilegt í desember og janúar þá þýðir það af þessum 427.450 ferðamönnum sem áttu leið um Keflavíkurflugvöll, síðastliðna þrjá mánuði, þá hafi 21.373 þeirra í raun verið útlendingar búsettir á Íslandi. Ekki liggur hins vegar fyrir hvert þjóðerni þessara ríflega 21 þúsund farþega var og því ekki hægt að segja til um hversu stór hluti af þessum fjölda hafi verið Pólverjar sem búa hér. Til samanburðar voru pólsku ferðamennirnir tæplega 18 þúsund síðustu þrjá mánuði.

Ekki eru það þó aðeins Pólverjar sem nýta sér hinar tíðu ferðir Wizz Air milli Íslands og Póllands því að sögn Gabor Vasarhelyi, talskonu Wizz Air, eru íslenskir farþegar um 15 til 20 prósent þeirra sem nýta sér áætlunarflug félagsins. Miðað við framboð félagsins má gera ráð fyrir að hátt í 400 Íslendingar haldi til Póllands vikulega með Wizz Air.