Ferðafólkinu fjölgar hægar en áður

Það var viðbúið að aukningin í janúar yrði ekki álíka og á sama tíma fyrra en hún reyndist hins vegar töluvert minni en spár gerðu ráð fyrir. Pólverjar stóðu undir stærstu hluta viðbótarinnar.

wizz
Með stórauknu flugi Wizz Air hingað frá Póllandi þá hefur fjöldi pólskra flugfarþega stóraukist í Leifsstöð. Mynd: Wizz Air

Síðustu mánuðina í fyrra hægði verulega á fjölgun ferðamanna og sú þróun hélt áfram í nýliðnum janúar. Þá fjölgaði erlendu farþegunum á Keflavíkurflugvelli um 8,5 prósent en til samanburðar var viðbótin 75 prósent í janúar í fyrra sem var reyndar óvenju mikil aukning. Samtals innrituðu tæplega 148 þúsund erlendir ferðamenn sig í flug í Leifsstöð í síðasta mánuði en þeir voru 136 þúsund í janúar í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Í spá Isavia fyrir árið 2018 var gert ráð fyrir að erlendu farþegarnir yrðu rúmlega 163 þúsund í janúar eða um 15 þúsund fleiri en raunin varð.

Bretar voru fjölmennastir í ferðamannahópnum í janúar en fjöldi þeirra stóð í stað milli ára. Bandarískum túristum heldur áfram að fjölga milli tímabila og nam viðbótin um um 2.500 farþegum. Mest var aukningin hins vegar í farþegum frá Póllandi því nærri þrjú þúsund fleiri Pólverjar áttu leið um vopnaleit Keflavíkurflugvallar núna en í janúar í fyrra. Ferðamannatalningin fer fram við öryggisleitina í flugstöðinni og eru erlendir ríkisborgarar, búsettir á Íslandi, taldir sem erlendir ferðamenn.

Það skýrir að hluta til þessa miklu fjölgun pólskra flugfarþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar enda hafa flugsamgöngur milli Íslands og Póllands eflst mjög mikið síðustu misseri og nú flýgur Wizz Air hingað frá fimm pólskum borgum. Þessar tíðu ferðir nýta sér vafalítið Pólverjar búsettir á Íslandi til að heimsækja föðurlandið og eins Pólverjar sem vilja heimsækja Ísland heim, annars vegar á eigin vegum en líka til að heimsækja landa sína sem eru búsettir hér.