Fjölga ferðum til Flórída

Þotur Icelandair munu fljúga oftar til bæði Orlandó og Tampa frá og með haustinu.

Lake Eola í miðborg Orlando. Mynd: Visit Orlando

Allt frá árinu 1984 hefur bandaríska borgin Orlandó verið hluti að leiðakerfi Icelandair og síðastliðið haust hóf félagið áætlunarflug til Tampa. Áfangastaðir Icelandair í Flórída eru því orðnir tveir og forsvarsmenn félagsins sjá tækifæri í að fjölga ferðunum þangað enn frekar. Frá og með haustinu munu þotur Icelandair því fljúga daglega til Orlandó og fjórum sinnum í viku til Tampa. Þar með verða vikulegu ferðirnar 11 talsins eða fjórum fleiri en nú er. Um tveggja klukkustunda akstur er á milli flugvallanna sem báðir eru miðsvæðis á Flórídaskaganum og þjóna þessu mikla ferðamannasvæði en Flórída er það fylki í Bandaríkjunum sem tekur á móti flestum túristum.

„Aukin tíðni skiptir miklu máli við að byggja þjónustu okkar upp fyrir þarfir atvinnulífsins á þessu svæði og til þess að styrkja tengiflug okkar í gegnum Keflavíkurflugvöll“, segir Guðmundur Óskarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, í tilkynningu. „Um leið eykur þetta tækifæri Íslendinga til að njóta alls þess fjölmarga sem þessir áfangastaðir hafa upp á að bjóða fyrir ferðamenn“.

Þess má geta að WOW air flýgur einnig til Flórída, nánar tiltekið til Miami, en gerir, líkt og Icelandair, hlé á flugi sínu til sólskinsfylkisins yfir hásumarið. Í dag er þó ekki hægt að bóka flug með WOW til Miami frá og með haustinu og Túristi hefur ekki fengið staðfest hvort félagið taki upp þráðinn í Flórída í haust.