Flugfarþegar setja nýtt met í vopnaburði

Það er furðu algengt að hlaðnar byssur og önnur vopn finnist á farþegum á bandarískum flugvöllum

Þeir sem reyna að komast með byssu um borð eru oftar en ekki með kúlur í farteskinu líka. Mynd: David Levêque / Unsplash

Á hefðbundnum degi fóru um tvær milljónir flugfarþega í gegnum vopnaleitina á bandarískum flugvöllum í fyrra. Þar af voru rétt um 11 gripnir með skotvopn því samtals voru 3.957 byssur gerðar upptækar á flugfarþegum í Bandaríkjunum á síðasta ári sem er aukning um 16,7% frá því því í hittifyrra. Athygli vekur að kúlur voru í um 9 af hverjum 10 byssum og um þriðja hver byssa var hlaðin samkvæmt frétt á vef Flugöryggisstofnunnar Bandaríkjanna (TSA).

Algengast er að farþegar séu gripnir með byssur í þeim fylkjum þar sem leyfilegt er að ganga um með skotvopn innanklæða. Þurfa því fæstir að taka út refsingu fyrir að reyna að smygla vopnum um borð enda bera flestir því við þeir hafi einfaldlega gleymt að taka af sér byssuna áður en þeir innrituðu sig í flugið. Sem fyrr fundust flestar í Atlanta flugvelli sem er jafnframt fjölfarnasta flughöfnin vestanhafs. Þar á eftir kemur Fort-Worth í Dallas en í vor hefst beint flug þangað frá Íslandi og munu American Airlines, Icelandair og WOW öll bjóða upp á reglulegar ferðir til borgarinnar frá og með vorinu. Fjórir aðrir flugvellir á listanum eru hluti að leiðakerfi Icelandair, þ.e. Denver, Tampa, Orlando og Seattle.
Það eru hins vegar ekki bara skotvopn sem öryggisverðir á bandarískum flugstöðvum finna því eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan.

Þeir flugvellir sem flestar byssur fundust:

  1. Hartsfield-Jackson Atlanta International: 245
  2. Dallas/Fort Worth International: 211
  3. George Bush Intercontinental Airport – Houston: 142
  4. Denver International: 118
  5. Phoenix Sky Harbor International: 115
  6. Tampa International: 97
  7. Orlando International Airport: 94
  8. Dallas Love Field: 93
  9. Nashville International: 89
  10. Seattle–Tacoma International Airport: 75